Ófrelsi á fjölmiðlamarkaði
Frjálshyggjufélagið vill koma á framfæri eindregnum mótmælum gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar um fjölmiðla. Í frumvarpinu felst mikil skerðing tjáningar- og atvinnufrelsis.
Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að einstakir aðilar eigi marga fjölmiðla, hvort sem þeir nota þá til þess að boða tilteknar skoðanir eða flytja hlutlausar fréttir. Sumir fjölmiðlar eru beinlínis settir á fót til þess að boða skoðanir. Það er helgur réttur borgaranna að mega boða skoðanir sínar með þeim hætti.
Algerlega er ótækt að gera greinarmun á tjáningarfrelsi og eignarhaldi á fjölmiðlum. Til þess að boða skoðanir víða þarf ávallt einhvers konar fjölmiðla. Menn hafa ekki rétt á að boða skoðanir sínar í fjölmiðlum annarra. Það er eigenda hvers fjölmiðils að ákveða hvaða efni birtist í honum.
Það eina sem andstæðingar fréttaflutnings einstakra fjölmiðla geta farið fram á er frelsi til þess að boða skoðanir sínar sjálfir með sínum hætti. Ef maður er ósammála skoðun er honum ekki heimilt að banna boðun hennar. Hann hefur aftur á móti heimild til að mótmæla henni.
Ríkisstjórnin er að fara inn á afar hættulega braut með frumvarpi sínu. Nú er ríkisvaldið farið að skipta sér af eignarhaldi á fjölmiðlum. Þeir sem nú eru sáttir við markmiðið með þeim afskiptum verða ekki endilega sáttir við þau framtíðarafskipti sem nú er búið að opna fyrir.
Samkvæmt frumvarpinu mega fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði viðskipta ekki eiga fjölmiðla. Frjálshyggjufélagið bendir á að ríkið er í markaðsráðandi stöðu á mörgum mörkuðum en á engu að síður fjölmiðla og spyr hvort ríkið ætli frekar að einkavæða Ríkisspítalana og Landsvirkjun eða Ríkisútvarpið, fyrst það telur tengsl af þessu tagi óæskileg.
Samkvæmt frumvarpinu er bannað að tengja saman rekstur prent- og ljósvakamiðla. Hvers vegna er bannað að eiga dagblað og sjónvarpsstöð, en ekki tvö dagblöð eða tvær sjónvarpsstöðvar? Hvers vegna stafar meiri hætta af fjölmiðlasamsteypum í blönduðum rekstri? Frjálshyggjufélagið telur að ríkisstjórnin hafi engin góð svör við þessum spurningum.
Frjálshyggjufélagið bendir á að ólíklegt sé að frumvarpið nái almennilega tilgangi sínum. Einstaklingar munu halda áfram að nota fjölmiðla í margvíslegu skyni. Ekki er hægt að banna einstaklingum sem hafa sambærilegar skoðanir að eiga mismunandi fjölmiðla og vera samstíga í notkun þeirra. Lögin verða því hugsanlega eingöngu til ama, án þess að hafa þau áhrif sem þeim er ætlað.
Neytendur eiga að fá að ákveða hvaða fjölmiðla þeir eiga viðskipti við. Þeir eiga að hafa frelsi til þess að eiga viðskipti við mismunandi fjölmiðla sem eru í eigu sama aðila, jafnvel aðila í markaðsráðandi stöðu.
Sá sem er ósáttur við tjáningu einstakra frjálsra fjölmiðla getur ekki kvartað yfir því að peningar annarra séu notaðir í boðun skoðana sem hann er ósammála.
http://www.frjalshyggja.is/?gluggi=alyktun&id=22
Frjálshyggjufélagið