Öflugur VG fundur í Reykjanesbæ
Um 60 manns mættu á fund VG á Flughóteli í Reykjanesbæ að kvöldi fimmtud. 22. okt. Þar höfðu framsögu Atli Gíslason alþingismaður, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Sigmundur Einarsson jarðfræðingur á Náttúrufræðistofnun.
Atli talaði fyrstur og minnti fundarmenn á hvaða flokkum hrunið er að kenna og hverjir beri ábyrgð á að landið skuldar nú um 2.300 milljarða þar sem Icesave skuldin er rétt um 10 % af. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar geirnegldi það í nóvember og desember í fyrra að samið yrði um Icesave og kærufrestur rann út 7. febrúar án þess að það væri kært að Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn okkur. Rétt sé að skoða málflutning Sjálfstæðismanna á þingi nú í ljósi þess. Atli minnti einnig á hver stýrði Seðlabankanum í gjaldþrot svo ríkið þurfti að punda út 300 milljónum til að bjarga honum.
Atli sagði frá nýlegum fundi með ferðaþjónustuaðilum þar sem kom fram að ferðaþjónustan skaffar að meðaltali 200 milljónir í tekjur á dag. Einnig á gríðarlega grósku hjá hátækni- og sprotafyrirtækjum, t.d. væri Marorka að bæta við 200 manns. Hann þekkir fegurð og fjölbreytni Reykjanesskagans frá barnsaldri frá ferðalögum með föður sínum sem var leiðsögumaður og fór oft með bandaríska hermenn um skagann. Heilluðust þeir mjög af mosa og hraunum sem mörgum íslendingum þótti lítið til koma.
Sigmundur Einarsson jarðfræðingur talaði næstur. Hann er alinn upp í Keflavík og bar þar út Þjóðviljann sem ungur maður. Hann skrifaði 1, okt. grein í vefritið Smuguna sem hefur vakið mikla athygli, sjá hér: http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/2327 Og aftur 15. okt. http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/2379
Sigmundur vinnur að rannsóknum á háhitasvæðum landsins fyrir rammaáætlun um nýtingu orkulinda landsins. Hann útskýrði mjög vel fyrir fundarmönnum að orkan sem hægt sé að virkja til raforkuframleiðslu með þeirri tækni sem við ráðum nú yfir sé að líkindum mun minni en margir vilja vera láta. Fátt sé þar fast í hendi og líklegt að mörg þeirra svæða sem áætlanir eru um að virkja gefi litla eða enga raforku, en þá þarf hitinn að vera vel yfir 200°C. Það verður ekki til nein orka upp úr jörðinni við það að teikna orkuver, sagði Sigmundur. Þau álver sem áætlanir eru um á Bakka og í Helguvík myndu taka bróðurpartinn af orku háhitasvæða landsins ef undan eru skilin friðuð svæði eins og Torfajökulssvæðið við Landmannalaugar. Hann klikti út með að líklega væri draumurinn um óþrjótandi orkulindir á Íslandi álíka mikið plat og velgengni bankanna fyrir hrun.
Svandís lýsti gleði sinni að vera komin á fund í Reykjanesbæ. Hún vill frekar að fólk talist við en að skiptast á ályktunum og skeytum. Hún lagði mikla áherslu á heildarmynd af orku- og auðlindamálum. Að baki harðvítugri gagnrýni hægri aflanna séu grjótharðir hagsmunir þeirra að koma þessari ríksstjórn frá áður en leitt verður óyggjandi í ljós hve blinda markaðshyggjan var mikill glæpur gegn almenningi. Hún minnti á að Sjálfstæðisflokkurinn beitti á sínum tíma málþófi til að reyna að koma í veg fyrir að umhverfisráðuneytið yrði stofnað. Nú sé það að sinna skyldu sinni fyrir börn framtíðar. Vilhjámur Egilsson sem beitir sér hvað mest nú var formaður viðskiptanefndar Alþingis þau 10 ár sem flestar eignir almennings voru seldar á gjafverði sem þeir borguðu ekki einu sinni. Samfélagssáttin var rofin með gríðarlegu misrétti. Þessir menn þyrla nú upp miklu moldvirði til að fela eigin getuleysi til að vinna að hagsmunum almennings. Það sé dapurlegt að horfa upp á hve margir eru atvinnulausir, en enginn þeirra er þó atvinnulaus vegna ákvörðunar umhverfisráðherra.
Við eigum að nota orkuauðlindirnar skynsamlega, ættum t.d. að vera fyrst þjóða til að vera sjálfbær með alla orku, líka til samgangna.
Að framsögum loknum komu margir með spurningar og athugasemdir sem framsögumenn svöruðu. Nokkur dæmi:
Garðar Páll Vignisson bæjarstjórnarmaður í Grindavík kom í pontu og las upp bókun frá síðasta fundi bæjarstjórnar þar sem segir:
"Meirihluti, B, S og V lista álítur að meta eigi sameiginlega umhverfisáhrif orkuöflunar og orkuflutninga á Reykjanesskaganum. En jafnframt að þeirri vinnu verði hraðað eins og kostur er" Fulltrúar B, S og V lista. Sjá nánar hér: http://www.google.is/search?sourceid=navclient&ie=UTF-8&rlz=1T4SKPB_enIS340IS344&q=0910019+-+Sameiginlegt+mat+styrkingar
Spurt var hvort núverandi Suðurnesjalína gæti flutt raforku fyrir fyrirhugað gagnaver. Það mun vera hægt því aðal álagið á línuna nú er vegna flutnings rafmagns frá Suðurnesjum inneftir, en sá flutningur myndi minka með tilkomu gagnavers á Suðurnesjum.
Spurt var um ferðaþjónustu og tækifærin þar. Bent var á að 80 % af tekjum af ferðamönnum verður eftir í landinu, en afarlítið af tekjum af álveri meðan tilheyrnadi orkuver eru í skuld. Flestir erlendir ferðamenn koma til landsins til að sjá íslenska náttúru, ekki til að horfa á raflínur eða verksmiðjur. Af þeim sökum vill Svandís friða Gjástykki því það sé einstakt á heimsvísu, þar er alveg nýtt land, eins og Surtsey á þurru landi. Hún bað fólk hér að hyggja að möguleikum Reykjanesskagans og að þróa hgumyndina um eldfjallagarð. Garðar benti á að það væri hluti af auðlindastefnu sem Grindavík hefði nýverið mótað.
Atli sagði frá fundi sem hann og fjármálaráðherra áttu sl. laugardag uppi á velli þar sem væri mikil gróska og stefni í að 1000-1500 störf verði til á næstu 3 árum.
Aðspurð sagðist Svandís ekki vera á móti álverum sem slíkum, en óviturlegt væri að byggja svo mörg. Ástralir væru t.d. með eitt álver og vildu ekki byggja fleiri slík, heldur annars konar iðnað til að vera ekki með of mörg egg í sömu körfunni.
Síðustu orð Svandísar var að biðja fók að muna það í næstu kosningum hvað Sjálfstæðisflokkurinn beri mikla ábyrgð því hvernig komið er fyrir okkur.
Þorvaldur Örn Árnason
Svipmyndir frá fundinum. Prjónakonur á fremsta bekk. - Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson