Ofbeldi eða uppbygging?
„Að æfa bardagalistir er slæmt. Það kennir fólki að meiða annað fólk. Það er slæmt fyrir samfélagið og ýtir undir ofbeldishegðun. Það er ekkert fallegt við það að kenna fólki að slást.“ - Svona fullyrðingar sem og margar aðrar líkar hef ég heyrt í mörg ár fá fólki sem er á móti iðkun bardagaíþrótta. Sjálfur hef ég æft bardagaíþróttir í tæp 14 ár og þá helst kóresku bardagalistina taekwondo. Ég tel að bardagaíþróttir hafi ekki bara breytt lífi mínu, andlegri líðan, líkamsformi, félagsþroska heldur geng svo langt að segja að þessi iðkun hafi bjargað lífi mínu. Ég hef þjálfað hundruðir einstaklinga og heyrt ótrúlegustu sögur af hvernig fólk hefur breytt lífi sínu með því að taka þátt í bardagalistum.
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á tengslum árásahneigðaðr, öðrum sálrænum atriðum og iðkun bardagalista. Grunnskólanemendur í áhættuhópi fyrir ofbeldisbrot og sálræna röskun tóku þátt í bardagalistum 3x í viku í 10 vikur. Helstu niðurstöður voru að í 12 af 14 breytum sem tengdust áhættuhegðun var marktækur og jákvæður munur á nemendum eftir tímabilið. Önnur rannsókn sýndi fram á bætta hugræna getu og þrautsegju við erfið verkefni. Rannsóknir hafa sýnt fram á líkur á minnkandi ofbeldishneigð, meira sjálfstrausti, einbeitingu, þrautseigju, leiðtogahæfileikum, trú á eigin getu, félagslegur þroski, sjálfsábyrgð og jákvæðni.
Við hjá taekwondo deild Keflavíkur kennum iðkendum frá 6 ára aldri og elstu iðkendur hjá okkur eru á fimmtugsaldri. Hér æfa allt frá ömmum að afreksmönnum og allt þar á milli. Við kennum fólkinu alls kyns spörk, högg, varnir, sjálfsvörn og alls kyns æfingar til að liðka og styrkja líkamann. Við kennum iðkendum að setja sér markmið, trúa á draumana sína, styrkja sjálfan sig, vera góður við náungann og gefast aldrei upp. Við sjáum gífurlega breytingu á svo mörgum sem æfa hjá okkur. Margir foreldrar hafa tekið eftir betri námsárangri og einbeitingu hjá barnininu eftir nokkra mánuði af æfingum. Vinnan skilar sér langt þar sem margir fara svo í það að æfa fyrir keppnir og á síðasta ári áttu við m.a. íþróttamann Reykjanesbæjar, íþróttafólk Keflavíkur sem og besta taekwondo fólk landsins annað árið í röð.
Fólk dæmir oft það sem það þekkir ekki. Ég tel að margar bardagalistir séu að hjálpa til við að leysa mörg vandamál í samfélaginu og að fólk gæti lært mikið af því að takast á í réttum aðstæðum og umhverfi. Iðkendum í bardagalistum er iðulega bannað að stunda ofbeldisfulla hegðun. Iðkendur sem koma í bardagalistir fá oft þá líkamlega og tilfinningalegu útrás sem þarf til þess minnka árásahneigð þeirra sem og það mikilvæga atriði að læra sjálfsvörn.
Nánari upplýsingar um starfið okkar má sjá á keflavik.is/taekwondo
Helgi Rafn Guðmundsson
Íþróttafræðingur
Yfirþjálfari taekwondodeildar Keflavíkur