Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Of lítið álver í Helguvík?
Fimmtudagur 23. nóvember 2006 kl. 22:11

Of lítið álver í Helguvík?

Uppi eru áform um að byggja álver með 250.000 tonna framleiðslugetu í Helgvík. Það hefur lengi legið fyrir að til þess að njóta hagkvæmni stærðarinnar þurfa álver að vera talsvert stærri en sem þessu nemur og því er viðbúið að stækka þurfi upp í u.þ.b. 500.000 tonn eða svo áður en langt um líður.

Þörf álvera til þess að ná framleiðslugetu nærri 500.000 tonnum kemur t.d. fram í skýrslu iðnaðar- og viðskiptaráðherra um framgang verkefna á sviði stóriðju sem lögð var fyrir Alþingi í október 1997. Þá hafði Hydro lýst áhuga á að byggja álbræðslu með allt að 720.000 tonna framleiðslugetu í einingum sem hver um sig hefði um 240.000 tonna framleiðslugetu.

Í skýrslu iðnaðarráðherra segir m.a: „Framleiðslugeta álversins yrði í upphafi að minnsta kosti 200.000 tonn á ári. Álver hafa farið stækkandi á undanförnum árum og til þess að nýta hagkvæmni stærðarinnar verður að gera ráð fyrir að tvöfalda megi framleiðslugetu álversins að nokkrum árum liðnum.“

Í tengslum við áformaða stækkun álversins í Straumsvík. Á NFS 3. mars sl. kom fram að forráðamenn Alcan höfðu í samtali við Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, sagt að annaðhvort yrði álverið í Straumsvík stækkað eða það lagt niður. Í viðtali Fréttablaðsins við Rannveigu Rist, forstjóra ÍSAL, þann 12. nóvember sl. komu fram upplýsingar af svipuðu tagi þar sem Rannveig sagði:

„Við höfum unnið markvisst að stækkuninni frá árinu 1999. Okkur er annt um að þessi áform nái fram að ganga því þau eru forsenda þess að hér verði blómlegur rekstur til langrar framtíðar. Til okkar eru gerðar miklar kröfur, ekki aðeins á sviði umhverfis- og öryggismála heldur einnig varðandi hagkvæmni í rekstri ..."

Eins og fram hefur komið munu íbúar í Hafnarfirði fá að kjósa um stækkunina og í því samhengi segir Rannveig: „Fólk þarf hinsvegar að átta sig á því að það er mikil breyting frá því sem tíðkast hefur hér á landi að íbúar geti kosið fyrirtæki í burtu, eða niður, eins og gæti orðið raunin hér í Hafnarfirði." Af þessum orðum að dæma stefnir í að íbúum Hafnarfjarðar verði boðnir kostirnir stækkun eða lokun.

Enn ein vísbendingin um að hagkvæmni stærðarinnar sé fólgin í mun stærri álverum er horft er til í Helguvík kom fram í Speglinum á Rás 2 þann 16. nóvember. Þar sagði Thorstein Dale Sjötveit, aðstoðarforstjóri Hydro, orðrétt:

„Álverið sem við erum að byggja í Katar núna framleiðir 600.000 tonn og við lítum á það sem skynsamlega stærð. Við erum þó einnig þeirrar skoðunar að byggingaráfangar með framleiðslugetu upp á 250 – 300.000 tonn geti verið góð og skilvirk álver.“ 

Til þess að fullnægja líklegri vaxtarþörf hugsanlegs 250.000 tonna álvers í Helgvík má ætla að virkja þurfi sem nemur um 500 – 600 MW í uppsettu afli. Það samsvarar 4-7 jarðvarmavikjunum til viðbótar við þær sem þarf til þess að knýja áfangana tvo sem nú eru til umfjöllunar.

Lítil umræða hefur farið fram um þessi mál á meðal íbúa á Suðurnesjum. Sem íbúi á svæðinu og framkvæmdastjóri samtaka sem vilja stuðla að lýðræðislegri og upplýstri umræðu um mál af þessu tagi velti ég því fyrir mér hvort almenn sátt sé um áformin á meðal Suðurnesjamanna. Áformaður er íbúafundur um áformin að kvöldi 27. nóvember í sveitarfélaginu Garði.

Bergur Sigurðsson,
framkvæmdastjóri Landverndar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024