Oddný og sannleikurinn um Helguvík
Sannleikurinn getur verið óþægilegur þegar samviskan er ekki hrein, eins og glögglega sást á fremur önugri grein þingmanns Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi á vef Víkurfrétta sl. miðvikudag. Þar er því haldið fram að undirrituð fari með rangfærslur og útúrsnúninga varðandi stuðning ríkisstjórna Jóhönnu Sigurðardóttur við álverið í Helguvík og að stjórnvöld hafi staðið með Suðurnesjamönnum í baráttunni, hafi á kjörtímabilinu staðfest fjárfestingarsamninga og skipað starfshóp vegna aðkomu ríkisins að framkvæmdum iðnaðarsvæðið sem muni bráðlega skila sér í formi frumvarpa. Mér er því bæði ljúft og skylt að fara enn betur yfir stöðu þessara mála, hvað er satt og hvað er logið og hverjir hafa nú annars staðið með hverjum?
Fjárfestingarsamningur vegna Helguvíkur – hverjir stóðu með Suðurnesjamönnum?
Fjárfestingarsamningurinn var samþykktur á Alþingi 17. apríl 2009, á lokadögum síðasta kjörtímabils í tíð minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Hann hafði verið undirbúin í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en var því miður ekki lokið þegar stjórnin féll. Atkvæði féllu þannig að 38 þingmenn greiddu atkvæði með samningnum, 9 voru á móti og 1 sat hjá.
Og hvernig skyldu atkvæði hafa fallið, hverjir skyldu nú hafa staðið með Suðurnesjamönnum í baráttunni? Af þeim 38 þingmönnum sem studdu samninginn komu einungis 11 atkvæði úr stjórnarflokkunum en þeir 10 þingmenn sem studdu ekki fjárfestingarsamninginn voru allir úr Samfylkingu og Vinstri grænum.
Álfheiður Ingadóttir þingmaður Vinstri grænna tók það sérstaklega fram í umræðunum á Alþingi að þetta mál væri „arfur“ frá fyrri ríkisstjórn og þingflokkur Vinstri grænna bókaði sérstaklega um andstöðu sína við samninginn og við framkvæmdirnar sjálfar. Við atkvæðagreiðsluna lét þáverandi umhverfisráðherra, Kolbrún Halldórsdóttir, þessi orð falla: „Hún er að mínu mati dapurleg, framtíðarsýn þeirra sem þykir það sjálfsagt að fórna enn fleiri dýrmætum náttúruperlum en orðið er fyrir uppbyggingu á mengandi þungaiðnaði og láta sér í léttu rúmi liggja að arðurinn af starfseminni hverfi úr landi ofan í djúpa vasa eigenda alþjóðlegra auðhringja sem hingað til hafa legið undir ámæli fyrir herfilega eyðingu vistkerfa á Indlandi, í Brasilíu, Ástralíu og Jamaíku þar sem rauð drulla blönduð vítissóda hrúgast upp og eyðileggur bæði búsvæði manna og dýra“. Núverandi umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir hefur svo á þessu kjörtímabili margítrekað andstöðu sína við álverið í Helguvík í ræðu og riti.
Það er því beinlínis rangt að halda því fram að núverandi stjórnvöld hafi staðið með Suðurnesjamönnum og því heiðarlegra fyrir Oddnýju G. Harðardóttur að segja að þessi fjárfestingasamningur hafi náð fram að ganga á sínum tíma þrátt fyrir ríkisstjórnina. Tuttugu sjálfstæðismenn greiddu atkvæði með samningnum og hafa ætíð staðið sem einn maður með þessari mikilvægu framkvæmd.
Starfshópur fjármálaráðherrans – ásættanlegur afrakstur?
Í fyrrnefndri grein hrósar fyrrverandi fjármálaráðherrann sér ennfremur af því að hafa skipað starfshóp í byrjun árs 2012 til að skoða aðkomu ríkisins að hafnarframkvæmdum og öðru í Helguvík. Áður hefur komið fram að á sama tíma hafi verið skipaður starfshópur til að skoða sambærilega hluti vegna framkvæmda við Bakka á Húsavík.
Er Oddný G. Harðardóttir virkilega ánægð með afraksturinn af vinnu starfshópsins? Á lokadegi þingsins urðu tvö frumvörp Steingríms J. Sigfússonar að lögum sem tryggja 3400 milljónir króna úr ríkissjóði í formi fjármagns og ívilnana vegna framkvæmda við Bakka. Norðlendingar og stuðningsmenn atvinnuuppbyggingar í landinu fagna.
Ekkert slíkt frumvarp kom fram um Helguvík. En eftir að þingi hefur verið slitið, 30 dögum fyrir kosningar boðar Oddný G. Harðardóttir að von sé á sambærilegum frumvörpum vegna framkvæmdanna við Helguvík. Hún boðar sum sé að næsta ríkisstjórn muni redda þessu. Í alvöru? Þetta er dæmalaust yfirklór og örvæntingarfull tilraun til að breiða yfir það sem allir sjá sem er að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur aldrei verið einhuga um stuðning við framkvæmdir við álver í Helguvík.
Þessi málflutningur dæmir sig að mestu leyti sjálfur því auðvitað finna Suðurnesjamenn fyrir stuðningsleysi núverandi stjórnvalda á eigin skinni á hverjum einasta degi. Ég vona svo sannarlega að Oddný hafi rétt fyrir sér um eitt – um stuðning næstu ríkisstjórnar við framkvæmdir í Helguvík. En ég vona líka að núverandi stjórnarflokkar eigi ekki aðild að þeirri ríkisstjórn – þeir hafa haft fjögur ár til að gera eitthvað í málunum. Og hafa ekkert gert nema að þvælast fyrir.
Ragnheiður Elín Árnadóttir,
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi