Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Ó vakna þú mín ríkisstjórn
Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar.
Föstudagur 5. apríl 2019 kl. 09:00

Ó vakna þú mín ríkisstjórn

Fréttirnar af gjaldþroti WOW air voru reiðarslag fyrir íslenskt samfélag og fyrirséð er að afleiðingar þess til lengri tíma verði miklar. Auk þeirra starfa sem hurfu með beinum hætti er talið að um sex- til sjöhundruð afleidd störf á Suðurnesjasvæðinu muni hverfa líka. Því er ljóst að fallið mun koma til með að hafa veruleg áhrif á atvinnulífið á svæðinu. Hugur minn er hjá þeim sem lifa við óvissu á þessari stundu. Höggið er þungt og erfitt og langt því frá að vera það fyrsta sem íbúar svæðisins hafa þurft að upplifa. Því miður.

Í síðustu kjördæmaviku heimsóttum við, þingmenn Viðreisnar, Reykjanesbæ og áttum þar fjölmarga fundi m.a. með sveitarstjórnarfólki, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, lögreglunni, fyrirtækjum og menntastofnunum á svæðinu. Mikill hugur var í heimamönnum enda hefur verið fordæmalaus uppbygging og uppgangur á svæðinu síðustu ár. Íbúum hefur fjölgað hlutfallslega mest af öllum sveitarfélögum á síðastliðnum árum eða um tæplega 5000 manns. Reykjanesbær er í dag fjórða stærsta sveitarfélag landsins. Slíkt hefur haft í för með sér ýmsa vaxtaverki en á sama tíma frábær tækifæri. Augljóst var þó að mikil óánægja ríkti á meðal þeirra sem við funduðum með vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar á svæðinu. Að mínu mati er vanræksla stjórnvalda augljós. Ríkisstofnanir á Suðurnesjum hafa ekki setið við sama borð og sambærilegar stofnanir annars staðar á landinu og að stuðningur hins opinbera hefur ekki fylgt með þeirri fordæmalausu íbúafjölgun sem átt hefur sér stað á umliðnum árum. Löngu er kominn tími á að bæta úr því. Sérstaklega á þessum miklu óvissutímum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þingmenn Viðreisnar hafa haldið ríkisstjórninni við efnið er varðar málefni svæðisins með fyrirspurnum í þinginu, greinarskrifum og í almennum pólitískum umræðum, en vald stjórnarandstöðunnar í þeim efnum er því miður takmarkað. Það munum við samt sem áður halda áfram að gera og leggja okkar af mörkum í að leiðrétta þá vanrækslu sem svæðið hefur mátt þola allt of lengi. Við leggjum mikið upp úr því að vera aðgengilegur þingflokkur. Því er ávallt velkomið að koma góðum málum og hugmyndum til okkar og við reynum hvað við getum að þrýsta á góð mál á hinum pólitíska vettvangi. En ljóst er að ríkisstjórnin þarf að vakna af sínum væra blundi, horfast í augu við raunveruleikann og sýna stuðning í verki fyrir Suðurnesin.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir,
formaður Viðreisnar.