Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 13. febrúar 2002 kl. 10:00

Nýtum sóknarfærin

Í opnu prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjnesbæ, sem fram fer þann 23. febrúar næstkomandi, hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 2. sæti framboðslista flokksins. Ég hvet bæjarbúa til virkrar þátttöku í prófkjörinu og nýta sér þann lýðræðislega rétt, að kjósa og stilla upp sterkum og samhentum lista. Í því góða liði vil ég vera og leggja mitt að mörkum til uppbyggingar okkar góða bæjarfélags.Það er í mörg horn að líta, þegar kemur að verkefnum sem nauðsynlegt
er að taka föstum tökum í Reykjanesbæ. Atvinnumálin eru eitt þeirra.
Atvinnulífið er undirstaða þess að hægt verði að gera gott samfélag
betra, þar sem fjölskyldan og velferðin almennt eru í forgangi. Ég
þekki þennan málaflokk, atvinnumálin, býsna vel, enda rek ég eigið
fyrirtæki. Ég veit því vel að möguleikarnir í atvinnulífinu eru
margir. En það þarf að nýta þá. Til þess þarf áræði, kraft og þor.

Fjármál bæjarins

Auka þarf tekjur bæjarsjóðs svo hægt verði að rétta við fjárhagsstöðu
bæjarins. Ekki með því að stórhækka gjöld á bæjarbúa, heldur með því
að gera bæjarfélagið að aðlaðandi kosti til búsetu, þannig að þeir sem
starfa hér á svæðinu, en búa annarsstaðar kjósi að flytja til
Reykjanesbæjar. Með því fjölgar þeim sem standa undir rekstri
bæjarins. Einnig þarf að taka til hendinni í stjórnkerfi bæjarins og
minnka rekstrarkostnaðinn með hagræðingu og skipulagsbreytingum

Í þrótta- og æskulýðsmál

Skýr stefna verður mörkuð í íþrótta og æskulýðsmálum í samvinnu við
hagsmunaaðila varðandi mannvirki, rekstrarform og annan stuðning
bæjarins. Forgangsröðun á uppbyggingu íþróttamannvirkja á að gera í
nánu samráði við íþróttahreyfinguna. Leita skal leiða í samstarfi við
íþróttafélögin til að lækka verulega kostnað foreldra vegna
íþróttaiðkunnar barna.

Umhverfismál

Koma þarf Reykjanesbæ á landakortið sem fyrrmyndar bæjarfélagi á
sviði umhverfisverndar. Þar er víða verk að vinna. Ég þekki nokkuð
til þeirra mála og veit að þar þarf ýmislegt að laga. Umhverfismál í
víðum skilningi eru mál málanna í dag og í framtíðinni.

Skólamál

Tryggja að skólamálin hér í bænum fái verðugan forgang. Þar hefur
margt verið vel gert. Það veit ég bæði sem bæjarfulltrúi og foreldri,
sem hefur fylgst með skólagöngu dóttur sinnar. En ég veit líka að
margt má þar betur gera, bæði í grunnskólunum og framhaldsskólanum.
Menntun er einfaldlega vegabréf inn í framtíðina

Málefni eldri borgara

Skýr stefna verði mörkuð um málefni eldri borgara í samráði við
hagsmunasamtök þeirra. Hafist verði handa við byggingu dvalarheimilis
aldraðra í Reykjanesbæ.


Að lokum

Það er mikilvægt í öflugu bæjarfélagi, að kjörnir fulltrúar séu „á
tánum" og ávallt vel vakandi fyrir nýjum möguleikum og hugmyndum. Það
þarf að nýta sóknarfærin. Ekki bara í íþróttum heldur líka
stjórnmálum. Við í Samfylkingunni erum tilbúin til að axla ábyrgð og
taka við stjórn bæjarfélagsins. Núverandi meirihluti er orðinn lúinn -
honum á að veita hvíld. Fyrsta skrefið í þá átt er góð þátttaka í
prófkjöri okkar í Samfylkingunni 23.febrúar næstkomandi. Vertu með í
sókn til nýrra tíma.

Ólafur Thordersen,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024