Nýtt upphaf, nýtt Ísland
Engum blöðum er um það að fletta að mikil óvissa ríkir um framvindu efnahagsmála. Það skiptir máli hvernig við bregðumst við og einnig hvernig alþjóðakreppunni vindur fram. Umfram allt er að láta ekki deigan síga. Verkalýðshreyfingin situr sannarlega ekki auðum höndum. Hún hefur markað sér stefnu, þrýstir á stjórnvöld og stendur fyrir lausnarmiðaðri umræðu, þótt henni sé ekki haldið í gráðið. Við tökum afstöðu með fólki. Forsenda þess að við vinnum okkur út úr vandanum er að taka á málum af festu og skynsemi. Aðild að ESB og upptaka evru er mikilvæg forsenda þess að við getum komið á stöðugleika til framtíðar og afnumið verðtryggingu. En nú ríður á að tryggja atvinnu og huga að stöðu heimilanna. Í fáum orðum mun ég fara yfir stöðuna í meginatriðum, eins og hún blasir nú við.
Samstarfið við AGS (IMF), hefur í fyrstu lotu tryggt okkur lánafyrirgreiðslu, ráðgjöf og trúverðugleika gagnvart öðrum þjóðum um að við getum tekið okkur tak. Það er einnig lykillinn að því að hægt sé að koma á eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum og endurvekja glatað traust út á við. Veruleg hætta stafar hins vegar af ótrúverðugleika Seðlabankans og vantrú á færni hans í innlendu og alþjóðlegu samhengi. Svo er afleitt að ríkisstjórin nýtur ekki trausts þjóðarinnar.
Hvað er framundan?
Framundan er gríðarlegur viðsnúningur. Þegar gert var ráð fyrir ,mjúkri lendingu“ í hagkerfinu bjóst enginn við því skelfilega hruni bankakerfisins sem orðið er þótt margir hafi varað við hættu af bankabólunni. Hagdeild ASÍ gerir ráð fyrir miklum samdrætti landsframleiðslu, 8-10%, rýrnandi kaupmætti, 5% síðust 12 mánuði og 7-8% milli næstu ára og verðbólga og vaxandi greiðslubyrði mun drega úr neyslu heimilanna um 20%. Þá mun fólksfækkun eiga sinn þátt í samdrættinum. Kaupmáttur mun enn minnka og fátækt aukast. Það verður ekki fyrr en á árinu 2010, að vonir standa til að hagvöxtur taki við sér og kaupmáttur aukist á ný. Ef heldur sem horfir munum við glata um 18.000 störfum á næstu árum. Við fáum e.t.v. um 8.000 ný störf, þ.e. við töpum 10.000. störfum umfram þau sem við fáum.
Hvers vegna evru?
Verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á að tryggja þurfi stöðugan gjaldmiðil til framtíðar. En hvers vegna viljum við evru? Við trúum því ekki lengur að unnt sé að tryggja stöðugleika með öðrum hætti, það er margreynt. Enginn vill lengur eiga krónur og þeir erlendu aðilar sem eiga krónur vilja losna við þær, selja þær fyrir erlenda mynt. Þeir trúa því ekki að krónan styrkist á eigin forsendum. Ef við stefnum hins vegar markvisst að því að ganga í ESB og upptöku evru vita allir hvert Ísland stefnir. Við gætum, á skömmum tíma, haft stuðning af sjálfu umsóknarferlinu að ESB aðild við að festa gengið. Það er þess vegna sem við köllum eftir skýrri stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að ESB. Það ríður á.
Hvað er til ráða?
Við núverandi aðstæður munu kjarasamningar hvorki viðhalda kaupmætti né auka hann. Hann gæti fallið um 20% frá árinu 2007. Megin áhersla verkalýðshreyfingarinnar er því að tryggja atvinnu og styrkja stöðu heimilanna, einkum með tilliti til greiðslubyrði húsnæðislána þar sem sérstakra aðgerða er þörf. Verkalýðshreyfingin hefur undanfarið starfað náið með félagsmálaráðuneytinu um leiðir að úrbótum til að milda höggið sem atvinnulaust fólk og fjölmörg heimili munu óhjákvæmilega komast í á næstu vikum og misserum. Má þar nefna nýju lögin um hlutaatvinnuleysi auk þess sem unnið er að virkum vinnumakaðsaðgerðum og menntaúrræðum fyrir fólk með litla formlega menntun. Við teljum fráleitt, eins og sakir standa, að skera niður útgjöld til velferðarmála. Lærum af Finnum. Það var finnsku hægristjórninni dýrkeypt að ráðst á velferðarkerfið. Skelfilegar afleiðingar fyrir marga Finna fylgdu í kjölfarið. Fólk dó úr hungri og kulda, þegar kreppna reið þar yfir á níunda áratugnum. Við verðum að standa vörð um velferðarkerfið með öllum ráðum, því að því verður sótt af misvitrum stjórnmálamönnum.
Hvað með unga fólkið?
Tryggja verður jafnrétti til náms og hafna allri gjaldtöku í menntakerfinu. Koma verður til móts við það unga fólk sem nýlega er komið á vinnu- og húsnæðismarkaðinn. Það má gera með barna- og vaxtabótum og tryggja öllum börnum leikskóladvöl og aðgengi að tómstunda- og íþróttastarfi óháð efnahag foreldra.
Uppbygging til framtíðar
Það er afar brýnt að flýta mannaflsfrekum framkvæmdum, sé þess nokkur kostur og fresta hinum. Nefna má að Norðurál hefur leitað eftir staðfestingu ríkisvaldsins á fjárfestingu nýs álvers allt að 360 þúsund tonna, sem reist verði í sex áföngum á sex árum í Helguvík. Mannaflsþörfin er u.þ.b. þúsund starfsmenn á ári í sex ár. Á Suðurnesjum er atvinnulaust fólk nú um þúsund manns. Þessa framkvæmd má ekki tefja, án þess að slakað sé á kröfum um umhverfisvend, enda gerist þess ekki þörf. Endurskoða þarf reglur um verkferla og vinnubrögð vegna umhverfismats, svo það hrindi ekki erlendum fjárfestum frá eins og dæmi sanna.
Efla þarf nýsköpun og hagnýtar rannsóknir m.a. um betri nýtingu sjávarfangs og á sviði líftæki og styðja verður við hvers konar sprotafyritæki. Þar getur öflug uppbygging og rannsóknarstarf í háskólum rutt nýjungum braut.
Við höfum allar forsendur til að vinna okkur út úr vandanum. Verkalýðshreyfingin mun leggja sitt af mörkum til að svo geti orðið.Til þess þarf nýtt upphaf, nýtt Ísland.
Skúli Thoroddsen