Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nýtt ráðhús?
Mánudagur 26. október 2009 kl. 15:19

Nýtt ráðhús?

Nú í kjölfar hruns og breyttra aðstæðna í þjóðmálum er eftir því kallað að menn leiti nú leiða til sparnaðar og annarar hugsunar hvað varðar opinberan rekstur. Og fyrir mann eins og mig, sem virðist leyfa sér að hafa skoðanir á nánast flestu í umhverfi mínu er þetta náttúrulega gósentíð. Hugmyndir koma og fara, sumar kæfi ég sjálfur með nánari umhugsun, en aðrar sjá vinir og vandamenn um að kæfa, sem finnst ég fara fullgeyst í hugsunum mínum.

En þrátt fyrir mótbárur finnst mér samt eins og ég hafi nú fengið hugmynd sem vert er að reyfa, og setja fram sem valkost nú þegar ljóst er að bærinn okkar á í vandræðum sökum mikillar skuldsetningar. Og mikilvægt er að við nýtum það sem við leigjum á skynsaman hátt. Svo má deila um hvað er skynsamlegt og hvað ekki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Öllum er okkur ljóst sem undanfarin ár höfum lagt leið okkar á bæjarskrifstofurnar, að sú starfsaðstaða sem þar er boðið upp á, er með lakara móti. Eða eins og einn starfsmaðurinn sem þar vinnur sagði “ Hér er ekki einu sinni pláss til að skipta um skoðun”. Bæjaryfirvöld hafa nú myndað sér skoðun um hvernig hús það sem kennt er við íþóttaakademínua verði nýtt til frambúðar, og spurning hvort hægt verði að skipta um þá skoðun.

Hús íþróttakademíunnar er stórt og mikið, enda byggt þegar stórbrotnar hugmyndir áttu hér auðvelt með að festa rætur. Sá tími er liðinn, og finna þarf húsinu nýja notkun. Ákveðið hefur verið að leggja það húsnæði undir starfsemi fimleikadeildarinnar, sem allra góðra gjalda verð, en spurning um hvort ekki séu aðrir möguleikar í stöðinni, bæði í ljósi fjarmagnstöðu bæjarins og fjölda þeirra íþóttahúsa sem nú þegar eru í bæjarfélaginu. Það tel ég vert að skoða betur.

Hús þetta er staðsett á besta stað í bænum, og sá hluti húsins þar sem íþróttastarfsemin fer fram í gefur góða möguleika á breytingum, sökum þeirrar lofthæðar sem nú er þar fyrir. Svo virðist sem þar mætti setja inn tvennar svalir og auka þar með fermetrafjölda þess rýmis umtalsvert þar sem koma mætti fyrir skrifstofum ýmiskonar. Tillaga mín gengur sem sagt út á að í stað þess húsnæði þessu verði ráðstaðfað til langs tíma undir starf fimleikadeildar, sem nýtti það part úr degi, verði að því hugað hvort ekki sé möguleiki að þess í stað verði hús íþrottaakademíunnar breytt í ráðhús bæjarins. Og húsið fullnýtt allan daginn.

Auðvitað þarf einhverju til að kosta, en á móti myndi koma sparnaður í húsaleigu á núverandi skrifstofum bæjarins, sem fyrir löngu er orðin óviðunandi og bænum ekki sæmandi hvað varðar aðbúnað þess starfsfólks er þar vinnur. Með þessu ynnist það að ráðhús bæjarins yrði meira miðsvæðis í bæjarfélaginu, og tengsl þess við þann þjónustukjarna sem þarna er að myndast, yrðu meiri og betri, með augljósum þægindum fyrir íbúanna. Ég tel rétt að bæjaryfirvöld kanni hvort slík breyting á húsnæðinu sé möguleg , í ljósi þeirra staðreynda sem ég hef hér að framan rakið. Það getur sparað bæjarfélaginu útgjöld til lengri tíma litið, sé þetta mögulegt.


Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson.



Ljósmynd úr safni.