Nýtt og sterkt fólk í stjórnmálin
Oddný G. Harðardóttir sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi sem haldið verður 5.-7. mars nk.
Oddný G. Harðardóttir hefur mestallan starfsferil sinn starfað að skólamálum, lengst af sem framhaldsskólakennari og stjórnandi í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ. Oddný starfaði þar sem aðstoðarskólameistari í meira en áratug, og sem skólameistari í eitt ár, við einstaklega góðan orðstír. Oddný er mjög góður stjórnandi, hún er áræðin og vandvirk, fljót að taka ákvarðanir, drífandi og kemur miklu í verk á stuttum tíma. Hún er ákveðin og hefur sterkar skoðanir sem hún rökstyður vandlega, en á sama tíma hlustar hún á aðra og virðir þeirra skoðanir. Þessi kostur kom sér vel í starfi aðstoðarskólameistara þar sem mjög mikilvægt er að vera leikinn í samskiptum og bera virðingu fyrir öllum, jafnt unglingum sem þeim sem eldri eru. Oddný hefur líka reynslu af menntamálunum frá annarri hlið vegna þess að hún var fengin af menntamálaráðuneytinu fyrir nokkrum árum til að vinna að breytingum á uppbyggingu framhaldsskólans sem þá voru í undirbúningi. Þetta verkefni stóð yfir í eitt ár og á þeim tíma kynntist Oddný framhaldsskólakerfinu mjög vel og lagði fram ýmsar gagnlegar tillögur að breytingum. Margar af þessum tillögum nýttust í því breytingaferli sem verið hefur í gangi í menntamálaráðuneytinu og endaði í nýjum lögum um framhaldsskóla sem samþykkt voru á síðasta ári.
Síðustu ár hefur Oddný verið sveitarstjóri í Garði og gengið mjög vel í því starfi, er sem fyrr farsæll stjórnandi og vinsæl af bæjarbúum í Garðinum.
Við þurfum á því að halda að fá nýtt og sterkt fólk í stjórnmálin nú þegar alvarleg vandræði blasa við okkur Íslendingum. Sterk kona eins og Oddný G. Harðardóttir með farsælan bakgrunn og viljann til verka er mikilvægur þátttakandi í þeirri uppbyggingu sem framundan er.
Brynja Aðalbergsdóttir, leikskólastjóri
Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari