Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Nýtt íþróttahús?
    Grindavík.
  • Nýtt íþróttahús?
Miðvikudagur 21. maí 2014 kl. 16:15

Nýtt íþróttahús?

Viktor Scheving Ingvarsson skrifar.

Ég hef undanfarna daga legið yfir málefnavinnu Samfylkingar í Grindavík. Ég hef líka heyrt af málefnavinnu annarra flokka fyrir komandi kosningar. Ég hef mikið hugsað um átakafletina í samfélaginu. Átakafleti sem að snúa að framkvæmdum og kostnaðarhlið þeirra. Hvernig er best að finna þeim átökum farveg í framtíðinni. Er hugsanlegt að íbúalýðræði sé svarið. Þetta er spurning sem að ég hef velt fyrir mér. Stjórnmálaöfl setja stundum dýrar framkvæmdir á stefnuskrá sína til að hala inn atkvæði. Þetta hefur í fortíðinni átt við um alla flokka víðsvegar um landið. Þetta hefur skapað fjárhagsvandræði. Ég vona að enginn taki þessu persónulega en ég vill meina að þetta sé pólitík fortíðar. Samfélagið þroskast og þróast vonandi hægt og bítandi í rétta átt. Við þurfum samt alltaf á einhverjum tímapunktum að taka stórar ákvarðanir.

Af hverju ekki að efna til íbúakosninga um það ef það á að eyða stórfé í framkvæmdir sem fólk er ekki einhuga um. Sérstaklega þegar það á að eyða peningum í afþreyingu fólks. Við eigum öll sjóði sveitafélagsins. Enginn einn hópur er rétthærri en annar.

Í Grindavík er mikill íþróttaáhugi. Ég er haldinn ástríðu fyrir íþróttum. Ég skil því vel fólk sem er haldið þeirri ástríðu. Sumar af mínum bestu stundum í Grindavík tengjast íþróttum. En ástríðan má ekki eingöngu ráða ferðinni þegar við tökum stórar ákvarðanir um framtíðarskipan mála. Mikið væri gaman ef skautahöll yrði byggð í Grindavík, en hver er skynsemin í því fyrir fjárhag og rekstur bæjarins. Skynsemi verður að vera með í för í stórum ákvörðunum. Við verðum að forgangsraða og meta hver þörfin er fyrir bæjarfélag af okkar stærð og vinna út frá því. Við megum heldur ekki taka stóra áhættu með fjárhaginn. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti.

Ástríðu fyrir íþróttum og öðru starfi má samt ekki drepa. Mikið af fólki vinnur allt sitt líf af áhuga og ástríðu fyrir sitt íþróttafélag og um leið samfélagið í heild sinni. Það fólk skilar gríðarlega miklu til samfélagsins. Gleymum ekki þeim forvörnum sem að íþróttirnar skila. Gleymum því ekki heldur að íþróttir og annað sambærilegt starf skila líka peningum inn í bæjarfélagið. Íþróttir eru líka eitthvað sem að sameinar flesta Grindvíkinga og fólk er stolt af sínu afreksfólki.

Það eru margar hliðar á þessum málum. Þær þarf að vega og meta. Núna er vöntun á fé inn í málefni aldraðra. Höfnin þarfnast nauðsynlegs viðhalds. Það þarf að fegra umhverfi bæjarins. Það þarf að bæta í þjónustu við fatlaða og svo mætti lengi telja. Í hvað á að eyða peningum á þessum tímapunkti?

Ég vona að okkur beri gæfa til að finna ástríðum okkar farveg með skynsömum hætti. Ein afstaða bæjaryfirvalda hefur mér þótt mjög skynsöm. Það er sú afstaða að eiga eitt þúsund miljónir í sjóðum bæjarins. Að setja núllpunktinn þar. Að eiga fyrir áföllum. Að eiga fyrir framkvæmdum. Það er vandasamt að eiga peninga. Sérstaklega þegar við kjósum bæjarfulltrúa á fjögurra ára fresti. Það hefur verið rík tilhneiging víða að eyða fjármunum í óskynsamleg kosningaloforð. Það er vonandi liðin tíð í Grindavík. Kjósendur nútímans hugsa af skynsemi um framtíð bæjarins. Fyrir ekki mörgum árum síðan var okkur talið trú um að peningar væru óþrjótandi og að allt væri hægt. Í dag viljum við öryggi og festu í fjármálum samfélagsins. Ég vona að við fáum það sem við viljum.

Nú er tekist á um byggingu nýs íþróttahúss eða stækkun þess gamla. Mín afstaða er ekki skýr í dag. Ég á erfitt með að taka ákvörðun. Ég get þó sagt að mér hugnast best sú leið að haldin verði íbúakosning um málið. Að sú leið sem að valin verði hafi lýðræðislegan stuðning. Við þurfum þá ekki að halda áfram að takast á um þá leið sem að valin verður á meðan byggingin, stækkun, eða sú leið sem að valin verður, er í framkvæmd. Það er líka kolómögulegt að fólki sé boðið uppá það að kjósa flokka bara út frá einu máli. Fólk á að fá að kjósa framboð sem það treystir fyrir heildarhagsmunum bæjarins. Bæði út frá fjárhagslegum hagsmunum og ekki síður fólki sem það treystir til að takast á við stjórnsýslu bæjarins af festu og öryggi, varða veginn til betra mannlífs. Tökum þetta einstaka stóra mál út úr því vali. Það er að mínu viti skynsamleg lausn.

Viktor Scheving Ingvarsson

Undirritaður er skipstjóri og skipar 3. sæti Samfylkingarinnar í Grindavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024