Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nýtt Ísland með nýrri kynslóð stjórnmálamanna
Mánudagur 2. mars 2009 kl. 17:43

Nýtt Ísland með nýrri kynslóð stjórnmálamanna

Ljóst er að Íslendingar eiga mikið verk framundan við að byggja upp land, þjóð og orðspor næstu árin. Traust íslenskra stjórnvalda er lítið sem ekkert og eru orð ráðamanna tekin með miklum fyrirvara og tæplega talin trúandi. Mörgu þarf að breyta á Íslandi á næstu árum, efnahagsstjórninni meðal annars. Ég tel einnig mikilvægt að ný viðhorf ryðji sér til rúms í stjórnmálum. Nú þarf ný kynslóð stjórnmálamanna að koma fram á sjónarsviðið og nýta sér reynslu hinna eldri en kraft hina ungu til að byggja upp land og þjóð. Með reynslu á ég við að það þarf að læra af því sem vel hefur verið gert í fortíðinni og sömuleiðis því sem miður hefur farið.

Mikilvægt er þegar Ísland verður byggt upp á nýjan leik að tryggja betri aðskilnað milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Alþingi á að setja lögin, framkvæmdavaldið að framfylgja þeim. Skilin þar á milli eru allt of óljós, auk þess sem auka þarf veg og virðingu Alþingis til muna. Einnig þarf að tryggja betur sjálfstæði dómsvaldsins gagnvart framkvæmdavaldinu. Eina leiðin til að þetta verði mögulegt er endurskoðun stjórnarskrár Íslands. Sú endurskoðun á að vera í höndum stjórnlagaþings en ekki stjórnmálamanna.

Stjórnlagaþing hefur verið rætt innan Framsóknarflokksins síðan íbúðalýðræðisnefnd tók til starfa innan flokksins síðasta vor undir forustu Jóns Kristjánssonar, fyrrum þingmanns og ráðherra, Ágústs Þórs Árnasonar, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri og undirritaðrar. Eftir miklar umræður um hvernig væri hægt að auka íbúðalýðræði færðust umræðurnar yfir í stjórnarskrá Íslands og hversu illa hefur gengið að gera raunverulegar breytingar á stjórnarskránni. Kom þá upp gömul hugmynd um að ef til vill væri rétt að kalla saman stjórnlagaþing.  

Atburðir síðustu mánaða hafa sýnt að nú er einmitt tækifærið til að kalla saman stjórnlagaþing til að semja nýja stjórnarskrá fyrir Íslendinga. Okkur hefur gefist einstakt tækifæri til þess að fara yfir grundvöll íslensks lýðveldis og hvernig við viljum skipa löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Sú skipan mála sem hefur við lýði síðustu áratugina er ekki sjálfsögð eða hin eina rétta leið. Enda hefur það sýnt sig að framkvæmdavaldið hefur vaxið um of á kostnað löggjafarvalds og dómsvalds.

Í frumvarpi þingflokks Framsóknarflokksins er gert ráð fyrir því að stjórnlagaþing verði kallað saman innan fjögurra mánaða frá gildistöku laganna. Ég er sammála því sem fram kemur grein Eiríks Tómassonar sem birtist í fréttablaðinu fyrir um viku síðan um að það eigi að kjósa til stjórnlagaþings samhliða Alþingiskosningum þann 25. apríl. Eru ýmis rök fyrir því og má meðal annars nefna þann sparnað sem hlýst af því að kjósa samhliða Alþingiskosningum í stað þess að boða til sérstakra kosninga næsta haust.

Verði frumvarp framsóknarmanna að veruleika og kosið verður um fulltrúa til stjórnlagaþings á sama tíma og kosið er til Alþingis þann 25. apríl væri hægt að kjósa um hina nýju stjórnarskrá um leið og kosið verður til sveitarstjórna í maí 2010. Gert er ráð fyrir því að þingið hafi 6 mánuði til að semja nýja stjórnarskrá en hægt er að framlengja þann tíma að hámarki um 2 mánuði.

Nú er einstakt tækifæri til að semja nýja stjórnarskrá– látum ekki pólitíkina eyðileggja góðan málstað. Ljóst er að traust á stjórnmálaflokkum, alþingismönnum og ráðherrum hefur minnkað á síðustu vikum og árum. Því er nauðsynlegt að byggja upp nýja kynslóð stjórnmálamanna sem tileinka sér opnari og heiðarlegri vinnubrögð. Nýir og breyttir tímar kalla á nýja og breytta starfshætti – það á líka við um starfshætti á Alþingi Íslendinga.

Ég sækist eftir 2. sæti á lista framsóknarmanna í Suðurkjördæmi. Það er mín ósk að framsóknarmenn á Suðurnesjum styðji mig og taki þátt í póstkosningu en skila kjörseðlum í póst fyrir lokun pósthúsa miðvikudaginn 4. mars. Ég ábyrgist að ég mun starfa að heiðarleika, vinnusemi og með hagsmuni lands og þjóðar í fyrirrúmi. Ég mun fylgja grundvallarstefnu Framsóknarflokksins um samvinnu og manngildi ofar auðgildi.

Bryndís Gunnlaugsdóttir
Formaður Sambands ungra framsóknarmanna og lögfræðingur
Sækist eftir 2.sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024