Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 26. október 2006 kl. 09:04

Nýtt form við skipun ráðherra hjá Samfylkingunni?

Við lestur Víkurfrétta núna  síðustu tvær vikur má lesa annarsvegar í viðtali við Jón Gunnarsson alþingismann og hinsvegar grein Reynis Ólafssonar , að nú þegar sé afráðið, hverjir muni skipa ráðherraembætti Samfylkingarinnar að afloknum kosningum að vori.
Það er sumsé alveg á hreinu, að Jóni Gunnarssyni er ætlaður ráðherrastóll að loknum kosningum, ja nú þykir mér heldur betur stungin tólgin. Það er nú að mínu mati heldur fljótfærnislegt að álykta um þessa hluti  hálfu ári fyrir kosningar, þó ég viðurkenni alveg að við Samfylkingarmenn séum orðnir afar óþreyjufullir, að komast til valda á alþingi og í ríkisstjórn. Flestir flokkar á Íslandi viðhafa þá reglu ,að láta þingflokka sína velja úr sínum röðum ráðherraefni sín og þá venjulega að afloknum kosningum, en manni sýnist að stuðningsmenn Jóns Gunnarssonar hér syðra ætli að notast við aðrar vinnureglur, mér er spurn veit Ingibjörg Sólrún  af þessum ráðagerðum eða er slíkt kannski aukaatriði?  “Svona ráðherrabrölt í prófkjörsbaráttu á sér engin fordæmi að ég veit og minnir mig helst á trésmiðinn, sem byrjaði að smíða þak hússins áður en sökkulsmíðin hófst vegna mikillar lofthræðslu. Ágætu vinir, samflokksmenn og aðrir væntanlegir þátttakendur í prófkjörinu þann 4 nóvember, förum nú ekki á taugum þó stutt sé til prófkjörs, ég leyfi mér að vitna í orð evrópumeistarans í langstökki Torfa Bryngeirssonar að loknu  Evrópumótinu í Brussel  1950, er hann var spurður af  félögum sínum í íslenska landsliðinu, “ af hverju ertu ekkert taugaóstyrkur í svona keppnum”? Torfi svaraði að bragði, “ mér finnst það miklu verra.”
Talandi um að mestu máli skipti, hvar menn búa í kjördæminu, þá vil ég nú heldur að þingmenn okkar séu sýnilegir á milli kosninga og séu í sambandi við kjósendur sína,
hvar sem er í kjördæminu, ég varð til dæmis afar lítið var við” ráðherraefnið” hér í Reykjanesbæ við síðustu sveitarstjórnarkosningar, varði  ég þó nánast öllum lausum stundum á kosningaskrifstofu okkar hér í bæ síðustu 5-6 vikurnar fyrir kosningar.
Ég vil að lokum segja við kjósendur í prófkjörinu, það á enginn öruggt sæti á lista hvað þá í ríkisstjórn, kjósið þau sem að ykkar áliti verðskulda stuðning ykkar og látið ekki
ruglast  af  yfirboðum, sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum

Hilmar Hafsteinsson 

byggingameistari  Reykjanesbæ og stuðningsmaður  Lúðvíks Bergvinssonar til 1 sætis í prófkjöri Samfylkingar 4 nóvember n.k.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024