Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nýtt afl í Sandgerði ???
Fimmtudagur 8. júní 2006 kl. 16:25

Nýtt afl í Sandgerði ???

Ég las fréttablað Samfylkingarinnar í Sandgerði 12. tbl. sem ég rakst á af tilviljun.
Ég varð undrandi á ummælum og fullyrðingum oddvita listans, Ólafs Þórs Ólafssonar um að komið væri nýtt afl í Sandgerði, Samfylking og óháðir. Samfylkingin í Sandgerði er ekki nýtt afl í bæjarfélaginu. Félagið var stofnað haustið 2001 og bauð fram til bæjarstjórnarkosninga árið 2002 í samstarfi við Óháða borgara undir merki K-listans.

Í þeim kosningum bauð fram Þ-listi, Sandgerðislistinn undir forystu Ólafs Þórs og það vissu allir sem vildu vita að stór hluti þess hóps var fólk sem áður hafði stutt K-listann. Enda fór það svo í þeim kosningum að K-listinn tapaði einum af fjórum fulltrúum sínum og Þ-listinn fékk einn mann kjörinn. Það sátu svo þrír K-listamenn (Samfylkingarfólk) og einn Sjálfstæðismaður í meirihluta bæjarstjórnar árin 2002-2006. Það má því segja að Ólafur Þór og félagar hans hafi með markvissri andstöðu við K – listann stuðlað rækilega að því að koma Sjálfstæðismönnum að stjórn bæjarfélagsins. S.l. vetur var reynt að ná samstöðu með K og Þ-lista með það að markmiði að bjóða fram saman einn lista. Það tókst ekki og 20. mars s.l. ákvað Bæjarmálafélag K-listans á mjög fjölmennum fundi að bjóða fram í kosningunum nú í vor. Á K - listanum voru sjö flokksbundnir félagar í Samfylkingunni og annað fólk sem vill halda aðskyldum bæjarmálum og landsmálapólitík. Við á K-listanum höfum alltaf sagt að kosningar snúist að mestu um fólk og vonandi kemur að því að þessir listar nái saman um fólkið sitt.

En að úrslitum kosninganna núna. Það er augljóst öllum sem sjá vilja að Þ-listi sem hafði einn mann árið 2002 gekk inn í Samfylkinguna og náði einum manni frá K-lista til sín. Mér finnst þetta nú ekki neinn sérstakur sigur. Sigur K-listans er ekkert síðri og hafði hann ekki landsmálapólitískan staf til að styðja sig við. Hann hafði bara fólkið sem kaus hann og er K-listafólk innilega þakklátt fyrir mikið og gott traust. Skrítið þótti mér þegar efstu menn á S-listanum hlupu strax eftir að úrslit kosninga urðu ljós, með bréf til D-lista þar sem þeir fóru fram á meirihlutaviðræður. Töldu þeir þó D-listann höfuðandstæðing sinn í kosningunum. Hvað ætluðu þeir að gera við bæjarstjóraefni D-listans? Þeir hefðu átt að hræða fólk meira með því að ef það kysi K-listann þá yrði Sigurður bæjarstjóri og það átti að vera það alversta í stöðunni, fyrir kosningar. D-listinn vildi ræða við K-listann fyrst vegna góðrar samvinnu og mikils árangurs þessara aðila. Þegar viðræður stóðu yfir milli K og D lista, komu S-listamenn til oddvita K-listans og fóru fram á viðræður. Hann sagði þeim að á meðan viðræður stæðu yfir við einn aðila væru það óheilindi að ræða við annan á sama tíma. Það eru hrein ósannindi að hann hafi sagt að ekki væri vilji til samstarfs. En greinilega voru S – listamenn búnir að sjá að sér eftir símhringingar úr höfuðborginni. Ég fæ engan vegin skilið að Samfylkingin sé nýtt afl í Sandgerði. Þetta er flokksbrot frá Þ – listanum sem hægt er að segja að sé í besta falli í nýjum fínum S-listabúningi. Það er mín skoðun að einhverjir félagar mínir í Samfylkingunni hafi verið að velja sér nýja forystu í þessum kosningum. Ég óska þeim alls góðs og vona að sú forysta standi undir væntingum. Ég og margir fleiri höfðum aðra skoðun og teljum forystu K-listans mun traustari og betri kost.

Oddviti S-listans boðar málefnalega og harða pólitík. Ég segi að það sé Sandgerðisbæ til meiri gæfu að sleppa harðindunum og vinna málefnalega og í sátt að uppbyggingu bæjarfélagsins. Ég veit að Sandgerðisbær á sér bjarta framtíð. Ég er glöð yfir að aðilar af K-lista koma til með að stýra áfram uppbyggingu og framförum svo sem verið hefur, með góðu fólki af D-lista.
Ég óska öllum bæjarfulltrúum Sandgerðisbæjar velfarnaðar í störfum sínum.

Bestu kveðjur.
Sigurbjörg Eiríksdóttir,
formaður Samfylkingarfélagsins í Sandgerði árin 2001- 2005.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024