Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nýtt afl í bæjarmálum Reykjanesbæjar
Fimmtudagur 11. maí 2006 kl. 17:59

Nýtt afl í bæjarmálum Reykjanesbæjar

Nú nálgast kosningar og ráðandi flokkar keppast við í fjölmiðlum og kosningapésum að tíunda unnin afrek á síðasta kjörtímabili. Hinu sem miður fór er sópað undir teppið. Minnihlutaflokk-arnir reyna að draga teppið ofan af mistökum meirihlutans og hylja með því það sem vel tókst til. Allir keppast við að lofa gulli og grænum skógum á öllum sviðum mannlífs og framkvæmda án þess að hafa minnstu áhyggur af kostnaðnum. Svo eiga kjósendur að finna út úr öllu þessu kraðaki hvaða afl þeir viljum styðja til áhrifa.

Á kjörtímabilinu hefur núverandi meirihluti þokað mörgu til betri vegar eins og hann hefur tíundað nákvæmlega og hvergi dregið af í áróðursbæklingum sínum. Vissulega hefur hann leigt glæsilegt húsnæði undir leik- og grunnskóla bæjarins og margvísleg íþróttamannvirki. En hvað hefur þetta kostað okkur bæjarbúa? Mannvirki sem við höfum verið að koma okkur upp frá miðri síðustu öld hafa verið seld til sérstaks eignarhaldsfélags, sem bærinn á hlut í, en aðeins hluti af því sem fyrir þau fékkst fór í að greiða niður skuldir bæjarins. Bærinn þarf því bæði að greiða af gömlu skuldunum og leigu af fyrri eigum sínum. Undirritaður er einn af fjölmörgum bæjarbúum sem skilur ekki þessa hagfræði og óttast að þegar kemur að skuldardögum reynist fjárhagsleg afkoma bæjarins ekki vera í þeim blóma sem meirihlutinn státar af. Hér nægir að vísa til skrifa minnihluta núverandi bæjarstjórnar.

Í þessum stutta pistli gefst ekki tækifæri til að fjalla nákvæmlega um stefnumál Vinstrigrænna en þeir sem vilja kynna sér þau eru velkomnir á kosningaskrifstofu okkar.
En hvað viljum við upp á dekk í bæjarmálapólitík Reykjanesbæjar? Vissulega erum við félagshyggjuflokkur sem hefur það meginmarkmið að allir íbúar Reykjanesbæjar geti lifað með reisn alla ævi. Við viljum hlúa að þeim sem minna mega sín, efla félagslega þjónustu og jafnrétti á öllum sviðum og jafna kjör manna en jafnframt viljum við að allir einstaklingar hljóti þá menntun sem hugur þeirra stefnir til svo að hæfileikar þeirra nýtist þeim og samfélaginu að fullu. Við getum því ekki lofað skattalækkunum en munum reyna að sækja peningana í vasa þeirra sem ekki hafa lagt sinn skerf til samfélagsins.

Ægir Sigurðsson,
skipar 3. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar –græns framboðs í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024