Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nýr vegur til velferðar
Árni Sigfússon, bæjarstjóri.
Föstudagur 10. janúar 2014 kl. 12:36

Nýr vegur til velferðar

Vönduð umönnun og þjálfun barna á fyrstu fjórum árum ævi þeirra er áhrifaríkasta aðgerðin til að leiðrétta ójöfnuð í samfélaginu og bæta félagslega og efnahagslega stöðu til lengri tíma. Ríki og sveitarfélög eiga fremur að hindra ójöfnuð í að verða til, í stað þess að reyna að laga ójöfnuð þegar hann er orðinn til í gegnum skatta- og bótakerfi. Ég er ekki einn um þessa skoðun. Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, James J. Heckman, hefur m.a. fjallað ítarlega um málefnið.

Leiðréttum ójöfnuð með aðferð sem virkar
Hvers vegna skyldi niðurstaðan vera að umhyggja, örvun og menntun yngstu barna sé besta leiðin til að leiðrétta ójöfnuð í samfélaginu? Skýringin er sú að þessar aðferðir eru mun áhrifaríkari, öflugri og lífseigari til að hjálpa fólki út úr bágborinni félagslegri stöðu, fremur en  áhrif skattdreifingar- og bótakerfa: Fyrstu árin í lífi barns sem býr við félagslega erfiðar aðstæður marka spor sem líklegust eru til að fylgja því fjörutíu árum síðar.

Í bók sinni Giving Kids a Fair Chance, sem kom út á síðasta ári, fjallar Heckman um þessa leið. Hann tekur undir að það eru margar ástæður fyrir að menn vilji endurdreifa tekjum til að takast á við fátækt og hvetja til félaglegs hreyfanleika í samfélagi okkar. En nýr kjarni hafi komið í ljós. Hann sýni að um leið og endurdreifing dregur sannarlega úr félagslegum ójöfnuði á ákveðnum tímapunkti, þá auki hún ekki félagslegan hreyfanleika til lengri tíma. Hún taki ekki af neinni dýpt á raunverulegu viðfangsefni. Hann bendir á með rökum að lausnin sé að auka lífsgæði barns, sem býr við félagslega þungar aðstæður á fyrstu árum æfi þess. Þannig sé mun líklegra að það muni búa við félagslega sterkari stöðu og efnahagslegt sjálfstæði til framtíðar. Það sé líklegt að það stuðli fremur að aukinni framleiðni í samfélaginu. Jákvæðar aðgerðir í þágu yngstu barna og fjölskyldna þeirra séu bæði sanngjarnar, áhrifaríkar og hagkvæmar.

Staðreyndir
Það reynist vera mikill munur á þeim börnum sem búa við félagslega og efnahagslega erfiðar aðstæður en hafa fengið skipulegan stuðning fyrstu árin og þeim sem ekki höfðu slíkan stuðning.  Rannsóknir sýna nánast ótrúlegan mun. Þau börn sem fengu góða tilfinningalega umönnun og vitræna örvun á fyrstu 3-4 árum lífsins voru mun sterkari einstaklingar fjörutíu árum síðar. Langtímarannsóknir sýna að þau reynast hafa mun minni þörf fyrir sérkennslu í grunnskóla, stóðust grunnpróf frekar og luku frekar framhaldsskólanámi á réttum tíma. Þau höfðu hærri árstekjur þegar kom að framtíðarstörfum og höfðu síður þörf fyrir bótakerfi. Þau lentu mun síður í lögbrotum. Þau voru virkari samfélagsþegnar. Hecman sýnir fram á að fyrir hverjar 100 milljónir sem varið er í þessa áherslu, sparast 700 milljónir í opinberum útgjöldum um leið og framleiðni samfélagsins eykst.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þessar mikilvægu niðurstöður byggja í raun á viðurkenndum uppgötvunum í taugalíffræði og þróunarsálfræði. Þær sýna að öll börn eru einstaklega móttækileg fyrir hverskyns upplýsingum og umhverfisáhrifum á fyrstu þremur til fjórum árum í lífi þeirra. Þar mótast taugabrautir sem geta markað framtíð barnsins. Vitrænir hæfileikar markast mjög snemma á lífsleiðinni. Að efla greind og lausnamiðaða hugsun er mun erfiðara á táningsárum en á forskólaaldri, þótt félagslega og persónulega eiginleika megi þroska fram á þrítugsaldurinn. Fræðingar eru sammála um að farsælast sé þó að efla þessa eiginleika mjög snemma því þeir örva getuna til að læra.

Af því leiðir að rétt umhyggja, þjálfun og kennsla fyrir ungbörn og börn á leikskólaaldri er sterkasta uppskriftin fyrir þroska þeirra til framtíðar.

Við getum gert betur
Í Reykjanesbæ hefur áhersla verið lögð á að bjóða foreldrum uppeldisnámskeið og kynningar áður en börnin hefja leikskólagöngu. Þar er tækifæri til að hitta þá fyrir og átta sig á hverjir kunni að þurfa stuðning. Leikskólarnir í Reykjanesbæ eru mjög meðvitaðir um mikilvægt hlutverk sitt í áhrifum á þroska sérhvers barns. Auk kærleiksríkrar umönnunar hafa verið byggðar upp áherslur á læsi og málskilning. Í dag er læsi, stærðfræðihugtökum og talnaskilningi fléttað inn í allt starf barnanna frá tveggja ára aldri. Samstarf við foreldra er virkt. Það er ekki óalgengt að meirihluti barna sem koma upp úr leikskólum okkar sé farinn að þekkja stafina og hljóðin og sé mjög vel undirbúinn fyrir lestrarnámið. Þau hafa góðan málþroska og eru undirbúin fyrir talnahugtök. Prófanir úr fyrstu bekkjum grunnskóla gefa mjög uppörvandi vísbendingar. En við getum gert svo miklu betur.

Vilji er allt sem þarf
Við Íslendingar getum haft sérstöðu á þessu sviði. Við bjóðum yfirleitt mjög vandaða leikskóla fyrir öll börn og góða félagsþjónustu. Við eigum gott fagfólk sem skilur þessar áherslur vel og fylgist vel með. Ég trúi því að stjórnvöld, bæði ríkisstjórn og sveitarstjórnir, vilji leggja sitt af mörkum til að skapa hér samfélag þar sem menn hafa sannarlega sem jöfnust tækifæri, tilfinningalegan styrk og vitræna getu til að takast á við lífið. Þá verður síður þörf fyrir bótakerfi af gamla skólanum sem of oft ná ekki að vera annað en plástur á sár sem ekki gróa. Við höfum öðlast þekkingu til að gera þetta á nýjan hátt. Það mun ekki standa á Reykjanesbæ að leggja reynslu sína fram.

Við getum gert þetta.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri