Nýr Tómas Þorvaldsson GK væntanlegur til Grindavíkur
Þá er vetrarvertíð árið 2019 endanlega lokið og aflahæsti báturinn árið 2019 er:
Nei, þetta er ekki eins og var á árum áður þegar að það var næstum því slegist um það hver yrði aflahæstur á lokadeginum.
Sandgerðingar gerðu þó vel því 11. maí fór fram Vertíðaruppgjörsball í fyrsta skipti í Sandgerði og heppnaðist það vonum framar, þó svo kannski það hafi það verið með öðru sniði en vanalega var hér áður fyrr. Það var nefnilega þannig í mörgum bæjum en þó aðallega í Vestmannaeyjum, að haldið var lokaball vertíðar og var þá skipsáhöfn þess báts sem var aflahæstur afhendur bikar og á honum stóð nafn bátsins sem var aflahæstur þá vertíðina.
Þetta er liðin tíð í dag, kvótinn stjórnar öllu og nokkuð merkilegt er að hugsa til þess að fiskur er ekki alltaf fiskur þegar kemur af því að vigta aflann. Nú er það þannig að það er til eitthvað sem heitir ísprósenta sem þýðir að bátur kemur að landi með afla, hann er vigtaður á vigt í viðkomandi höfn, síðan er farið með fiskinn í fiskvinnsluhús og aflinn endurvigtaður. Þá er ísinn dreginn frá aflanum og eftir stendur hreinn fiskur.
Vertíðinni 2019 og vertíðinni 1969 munu verða gerð góð skil í riti sem ég fer í að gefa út bráðlega, þegar ég hef lagt lokahönd á verkið.
Förum aðeins í frystitogarana. Í Grindavík hefur fyrirtækið Þorbjörn hf gert út tvo frystitogara. Þeir eru Gnúpur GK, sem var áður Guðbjörg ÍS, og Hrafn Sveinbjarnarson GK, sem var áður Snæfell EA. Um haustið 2018 var undirritaður kaupsamningur á frystitogaranum Sisimiut, sem er í eigu Royal Greenland á Grænlandi. Þetta skip er reyndar ekki ókunnugt Íslandi. Það var smíðað árið 1992 fyrir Skagstrending hf á Skagaströnd og hét fyrst Arnar HU 1, en var selt til Grænlands árið 1996.
Togarinn er 67 metra langur og 14 metra breiður. Stutt er í afhendingu skipsins. Sigurður, sem hefur verið skipstjóri á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK í 29 ár, mun hætta á Hrafni og taka við skipstjórn á nýja skipinu sem mun fá nafnið Tómas Þorvaldsson GK.
Tómas Þorvaldsson er Grindvíkingum að góðu kunnur. Hann fæddist árið 1919 í Grindavík og lést árið 2008. Hann stofnaði ásamt þremum félögum fyrirtækið Þorbjörn hf. í Grindavík árið 1953 og er það fyrirtæki ennþá rekið undir sama nafni. Þorbjörn ehf. gerði út bát sem hét þessu nafni, Tómas Þorvaldsson GK 10, í tólf ár. Sá bátur átti sér langa sögu í Grindavík. Hann var smíðaður árið 1966 í Noregi og hét þá fyrst Héðinn ÞH. Þorbjörn eignaðist bátinn árið 1975 og hét hann þá Hrafn GK. Var báturinn gerður út undir þessu nafni, Hrafn GK, í um 20 ár þar til að breytt var um nafn á bátnum og hann fékk nafnið Háberg GK.
Þessi bátur var mikið á loðnuveiðum en síðustu árin hjá bátnum var hann gerður út á línu með beitningavél. Í einni veiðiferðinni snemma árs 2018 kom í ljós að báturinn hagaði sér eitthvað öðruvísi. Það var eins og hann væri að sveigjast í öldum eða að hann væri að brotna í tvennt. Bátnum var siglt til Hafnarfjarðar og tekinn í skoðun. Þar kom í ljós að í kjöl bátsins voru þrír langbitar en aðeins einn langbiti í lengingunni sem var gerð á bátnum fyrir mörgum árum síðan. Til þess að laga þetta hefði þurft að brjóta allt upp úr lestinni og skræla skipið að utan, gríðarlega mikil aðgerð og mjög dýr. Ákveðið var frekar að leggja bátnum og var honum þá siglt til útlanda í brotajárn. Svona endaði báturinn Tómas Þorvaldsson GK en framundan er nýr tími með nýjum og stærri Tómasi Þorvaldssyni GK.