Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nýjungar á næsta ári
Fimmtudagur 1. desember 2005 kl. 09:57

Nýjungar á næsta ári

Á nýju ári er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða Reykjanesbæjar og fyrirtækja hans verði hagstæð um tæpar 200 milljónir kr. Þetta er í samræmi við niðurstöður endurskoðaðarar áætlunar þessa árs, sem gerir ráð fyrir 159 milljón króna hagnaði.

Eignir Reykjanesbæjar umfram skuldir nema nú 3,4 milljörðum kr og fara vaxandi á næsta ári. Veltufé frá rekstri nemur 61 milljón kr. á þessu ári og stefnir í að verða um 200 milljónir kr. á næsta ári. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er að nálgast 30%.

Þessi jákvæða niðurstaða er afrakstur samtakamáttar mikils meirihlutar bæjarbúa til að gera Reykjanesbæ lífvænlegri að búa í og skapa nýjum íbúum tækifæri til búsetu. Fjölgun bæjarbúa á þessu ári stefnir í 4%, sem er mikill viðsnúningur frá fyrri árum þegar íbúafjöldi stóð nánast í stað og gaf jafnvel eftir.

Þannig eru auknar tekjur að koma mun fyrr til bæjarins en við þorðum að vona. Við töldum okkur þurfa að standa í ströngu við næstu kosningar til að sannfæra einhvern hluta bæjarbúa um að kostnaðarsöm uppbygging og uppstokkun nú væri skynsamleg því hún myndi skila sér í auknum tekjum innan fárra ára. Stefna okkar hefur strax sannað sig.

Greiðslur til yngstu barna hækka
Það er ánægjulegt að finna að Reykjanesbær er orðinn vel þekktur sem fjölskylduvænt samfélag á meðal sveitarfélaga. En við getum gert betur. Góður árangur í rekstri gefur nú færi á að standa enn betur að þjónustu við fjölskyldufólk í Reykjanesbæ. Við bíðum ekki lengur eftir ríkinu til að standa með foreldrum yngstu barna frá því að færðingarlofi lýkur og þar til þau fara í leikskóla. Í fjárhagsáætluninni eru gerðar tillögur um að hækka stuðning til foreldra sem nýta þjónustu dagmæðra um 127%, þ.e. í 25 þúsund krónur á mánuði. fyrir fulla vistun. Greiðslur bæjarins koma inn þegar barnið er 9 mánaða gamalt og þar til barnið fer í leikskóla. Þær geta numið tæpum 400 þúsund krónum á þessum tíma. Þótt bæjarbúar eigi nú orðið að þekkja að núverandi meirihluti í Reykjanesbæ stendur við kosningaloforð sín, er hér ekki um slíkt loforð að ræða því þetta verður framkvæmt frá og með næstu áramótum.

Álagningarhlutföll fasteigna lækka
Þá höfum við tekið ákvörðun að lækka fasteignagjöld íbúðarhúsnæðis um næstu áramót til samræmis við áætlaðar hækkanir á fasteigamati á árinu. Þetta getur þýtt um 15-20% lækkun á álagningarstuðli fasteignagjalda sem hefur verið 0,36% af fasteiganmati. Þannig mun bærinn skila til íbúðareigenda sambærilegri lækkun og hækkun fasteiganmatsins kann að vera. Samt náum við auknum tekjum, því fjöldi fasteigna er að aukast verulega í Reykjanesbæ.

Lóðarmat fasteigna hefur hækkað mikið á undanförnum árum. Því höfum við ákveðið að veita 25% afslátt af lóðarleigu allra þeirra sem greiða 2% lóðarleigu af lóðarmati og greiða eftir áramótin 1,5%. Þannig er dregið úr mismun sem verið hefur á milli þeirra sem greiða lóðarleigu sem hlutfall af fasteignamati lóðar og þeirra sem greiða samkvæmt hlutfalli af verkamannakaupi.

Aukinn stuðningur við fjölskylduna, börn, unglinga og eldri borgara.

Með góðri stöðu okkar í dag eru einnig tækifæri til að styrkja betur margvísleg þróunarverkefni í bæjarfélaginu.
Tónlistarkennsla verður efld og unnið að byggingu nýrrar tónlistarakademíu.
Ný 50 metra sundlaug og vatnagarður fyrir yngstu kynslóðina verða tekin í notkun í vor. Þá verður gert íþóttasvæði vestan Reykjaneshallar.
Hafist verður handa við byggingu hjúkrunarheimilis, öryggisíbúða og glæsilegrar félagsmiðstöðvar í þágu eldri borgara. Einnig verður boðin mötuneytisaðstaða í Hvammi, fyrir þá sem kjósa félagslega samveru í hádeginu. Þótt gert sé ráð fyrir aðstöðu fyrir alzheimersjúklinga í tengslum við nýja hjúkrunarheimilið 2007 verður á næsta ári hugað betur að stuðningi við þennan ört stækkandi hóp í okkar samfélagi.

Við hyggjumst styrkja þjónustu barnaverndar og standa að stofnun Rannsóknarseturs í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands.
Þá verður lagt fram sérstakt fjámagn til að gera þjónustu við fjölskylduna heilstæðari allt frá því foreldrar huga að barneignum og til unglingsáranna.

Við höldum áfram við uppbyggingu Akurskóla og endurbætum eldri skóla. Lestarmenningarverkefninu verður að sjálfsögðu haldið áfram, Frístundaskólinn efldur og hugað áfram að frístundaúrræðum fatlaðra grunnskólabarna. Til að sinna betur skipulagsvinnu við ört stækkandi gróðursvæði munum við ráða garðyrkjufræðing á Þjónustumiðstöð.

Skuldir lækka
Allt rúmast þetta innan þeirrar fjárhagsáætlunar sem nú er verið að leggja fram. Þrátt fyrir þessa auknu þjónustu og framlög er gert ráð fyrir að jákvæð rekstrarniðurstaða Reykjanesbæjar og fyrirtækja hans verði nær 200 milljónum kr. á næsta ári. Það þýðir að skuldirnar lækka einnig.

Hér er aðeins stiklað á stóru. Ég hvet bæjarbúa til að kynna sér þau fjölmörgu önnur verkefni sem kynnt eru í fjárhagsáætlun Reykajensbæjar sem lögð verður fram til fyrri umræðu þann 6. desember n.k. Gögnin verða aðgengileg á Upplýsingavef Reykjanesbæjar undir heitinu “Fjárhagsáætlun 2006” þann 5. desember n.k.

Árni Sigfússon
bæjarstjóri
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024