Ný þjónusta á vegum stéttarfélaganna
Ráðgjöf á sviði starfsendurhæfingar er ný þjónusta sem stéttarfélögin, í samvinnu við Virk – Starfsendurhæfingarsjóð, bjóða upp á. Starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignarstofnun með aðild allra helstu samtaka stéttarfélaga og atvinnuekenda á vinnumarkaði. Hlutverk Starfsendurhæfingarsjóðs er að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna langvarandi veikinda.
Áhersla er lögð á að koma snemma að málum og viðhalda vinnusambandi einstaklinga með virkni og öðrum úrræðum. Einstaklingar sem telja starfshæfni sína skerta eða að henni sé ógnað vegna heilsubrests geta leitað aðstoðar hjá ráðgjöfum sjúkrasjóða stéttarfélaganna.
Þjónustan sem ráðgjafarnir veita er m.a. aðstoð frá sérfræðingum svo sem náms- og starfsráðgjöfum, sálfræðingum og sjúkraþjálfurum, ráðgjöf og hvatning, mat á starfshæfni, leiðbeiningar um réttindi og fræðsla og námskeið.
Þjónustan stendur öllum atvinnurekendum og félagsmönnum stéttarfélaganna til boða endurgjaldslaust. Ekki er gerður greinarmunur á hvort félagsmenn séu í starfi, í veikindaleyfi, á sjúkrasjóði eða atvinnulausir. Einstaklingar eða fyrirtæki sem vilja afla sér frekari upplýsingar um þjónustuna geta haft samband við ráðgjafa stéttarfélaganna á Reykjanesi, Guðna Erlendsson, í síma 421-3050 eða í gegnum netfangið [email protected]. Einnig má finna ítarlegri upplýsingar á síðu starfsendurhæfingarsjóðs www.virk.is.