Ný tækifæri í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum
Íslenska heilbrigðiskerfið er eitt það besta í heimi. Það státar af frábæru heilbrigðisstarfsfólki, vel menntuðu og vel þjálfuðu, er vel tækjum búið og byggt á sterkum innviðum. Í þessum gæðum felast tækifæri sem við getum nýtt til atvinnusköpunar með miklum ávinning fyrir íslenskt samfélag.
Íslenska heilbrigðiskerfið er í dag byggt á hvort tveggja þjónustu hins opinbera og á þjónustu einstaklinga og er ljóst að þjónustan er fyrir alla þrátt fyrir að reksturinn sé í dag í höndum einkaaðila og þjónustustofnana í eigu ríkisins. Þetta fyrirkomulag leiðir ekki til tvöfalds heilbrigðiskerfis enda koma greiðslur í báðum tilvikum fyrir þjónustuna að hluta eða öllu leyti úr sameiginlegum sjóðum.
Iceland Healthcare
Iceland Healthcare er fyrirtæki sem vill bjóða erlendum sjúklingum upp á bæklunaraðgerðir og offituaðgerðir sem bið er eftir í þeirra heimalöndum. Þetta er gert með samningum við erlend ríki. Fyrirtækið er ekki með samninga við íslenska ríkið og mun ekki bjóða þjónustu sína til Íslendinga nema sérstaklega verði óskað eftir því af hálfu íslenska ríkisins. Þar sem fyrirtækið mun ekki þiggja greiðslur frá einstaklingum né opinberum aðilum á Íslandi er mikill misskilningur að Iceland Healthcare muni skapa hér tvöfalt heilbrigðiskerfi eða draga úr jöfnuði í íslenska heilbrigðikerfinu. Að blanda tilkomu þessa fyrirtækis við umræðuna um tvöfalt heilbrigðiskerfi hlýtur að vera byggt á misskilningi.
Mikil tækifæri í samstarfi einkaaðila og minni sjúkrastofnana
Til þess að ná árangri verða fyrirtæki eins og Iceland Healthcare að geta boðið gæðaþjónustu á hagstæðu verði í húsnæði sem stenst alþjóðlegar kröfur. Af þeim sökum sóttist fyrirtækið eftir samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) sem státar af glæsilegum skurðstofum og framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólki. Lengi hefur verið hefð fyrir því að einkaaðilar geri slíka samstarfssamninga við heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni um skurðstofuaðstöðu, hvort sem um sé að ræða aðila sem rukka skjólstæðinga sína beint eða aðila sem þiggja greiðslur að hluta eða öllu leyti frá ríkinu. Slíkt samstarf felur í sér ávinning fyrir alla aðila þar sem stofnunin skapar sér sértekjur sem hún getur nýtt til þess að efla þjónustu við íbúa á svæðinu.
Töpuð tækifæri, eða hvað?
Það vakti því undrun mína og fleiri starfsmanna Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, þegar í ljós kom að slíkt samstarf af hálfu stjórnvalda var ekki litið jákvæðum augum, ekki síst þegar litið er til þess að fyrir slíku samstarfi séu mörg fordæmi og að á svæðinu er atvinnuleysið mest á landsvísu. Það hlýtur að vera hagkvæmt fyrir alla aðila að leigja Iceland Healtcare og öðrum einkaaðilum aðstöðu þar sem hún hefur verið byggð upp, en er vannýtt.
Nú hefur verið ákveðið að loka skurðstofum HSS á vormánuðum þessa árs sem mun hafa í för með sér stórskerta þjónustu við íbúa á svæðinu, ekki síst fæðandi konur. Ég hvet aðila til þess að endurskoða afstöðu sína og vinna saman til hagsbóta fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og íbúa á svæðinu.
Helga Signý Hannesdóttir,
hjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja