Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ný menntastefna fyrir Reykjanesbæ
Föstudagur 5. febrúar 2016 kl. 10:00

Ný menntastefna fyrir Reykjanesbæ

Nú stendur yfir mótun nýrrar menntastefnu fyrir Reykjanesbæ. Menntastefnan leysir af hólmi Skólastefnu Reykjanesbæjar sem er frá árinu 2001. Hugtakið menntastefna varð fyrir valinu, m.a. í ljósi þess að sameinaðir voru tveir málaflokkar hjá bænum, fræðslumálin og íþrótta- og tómstundamálin. Skólastefna takmarkast oft við það hvernig haga skuli starfi skóla óháð því í hvernig umhverfi skólinn starfar. Nýrri menntastefnu er hins vegar ætlað að vera heildstæð áætlun um það hvernig nám á öllum skólastigum, leikur, listir og íþróttir fléttast saman og stuðlar sameiginlega að því að undirbúa unga fólkið okkar sem best undir það að verða virkir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi. 

Þegar unnið er að slíkri menntastefnu er mikilvægt að margir komi að. Fjölskipaður stýrihópur fulltrúa hinna ýmsu hagsmunahópa hafa komið að vinnunni hingað til og fundað reglulega síðustu mánuði. En það er einnig mikilvægt að almenningur fái tækifæri til þess að hafa áhrif á mótun menntastefnunnar. Í því ljósi stendur til að halda íbúaþing síðar í febrúarmánuði og verður það auglýst nánar þegar nær dregur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í næstu tölublöðum Víkurfrétta verða birtar sjálfstæðar greinar sem fjalla um menntastefnuna út frá mismunandi sjónarhorni. Ég vil hvetja áhugasama til að taka virkan þátt í umræðunni um nýja menntastefnu, því þannig verður hún menntastefna okkar allra.

Helgi Arnarson

sviðsstjóri fræðslusviðs Reykjanesbæjar