Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Ný hugsun í skólastarfi í Reykjanesbæ
  • Ný hugsun í skólastarfi í Reykjanesbæ
Föstudagur 30. maí 2014 kl. 08:40

Ný hugsun í skólastarfi í Reykjanesbæ

– Elín Rós Bjarnadóttir skrifar

Ég hef starfað sem kennari hjá Reykjanesbæ síðan 2006 en hef nú snúið mér að nýjum starfsvettvangi. Mér finnst kennarastarfið mjög skemmtilegt og gefandi en því fylgir oft á tíðum mikið aukaálag, þ.e. mikill tími fer í annað en það sem snýr að kennslu eða samskiptum við nemendur og foreldra. Langvarandi álag af þessu tagi dregur  úr starfsánægju og þegar starfsánægjan dvínar, aukast líkurnar á að kennarar láti af störfum. Það er dýrt fyrir samfélagið að tapa kennurum því þá tapast dýrmæt reynsla.

Líðan kennara hefur áhrif á líðan nemenda og námsárangur þeirra. Ég veit að við erum öll sammála því að vilja eingöngu það besta fyrir börnin okkar í Reykjanesbæ. Við viljum að þeim vegni vel í námi og líði vel. Þess vegna er einmitt svo mikilvægt að skapa betra starfsumhverfi fyrir kennara. Þá njóta þeir sín betur í kennslunni og í samskiptum við nemendur og heimili og viðhalda lifandi áhuga á starfinu. Þetta er um leið einfaldasta leiðin til að laða fram lifandi áhuga nemenda á náminu, grundvallaðan á hvatningu, uppbyggilegri reynslu, öryggi og vellíðan.

Fræðsluskrifstofan okkar er að gera góða hluti. Þar er fólk sem vill vera með í að gera skólana að betri vinnustað kennara og nemenda. Þar liggja gríðaleg tækifæri til að efla samvinnu skólanna. Ég sé  fyrir mér að starfsmaður fræðsluskrifstofu taki að sér ákveðin verkefni sem kennarar verja gríðarlegum tíma í á hverju ári. Hér er ég til dæmis að tala um innleiðingu nýrrar aðalnámskrár, gerð eineltisáætlana, jafnréttisáætlana og lestrarstefnu. Starfsmaður fræðsluskrifstofu myndi þá koma með hugmyndir inn í vinnuhóp sem skipaður væri af skólunum öllum. Það væri mikill vinnusparnaður ef skólarnir ynnu saman að ýmsum verkefnum með aðkomu fræðsluskrifstofu. Kennarar fengju þá meiri tíma til undirbúnings kennslunnar og til samstarfs við heimilin. Markmiðið er ekki aðeins að bæta hefðbundna kennslu, heldur líka að laða fram sköpunarargáfu og eðlislæga getu hvers nemanda í jákvæðu umhverfi. Þannig verður einstaklingurinn í öllum sínum fjölbreytileika lifandi miðpunktur starfsins.

Ég mun beita mér fyrir því að bæta umgjörð í skólastarfi í Reykjanesbæ til að auka vellíðan nemenda og kennara og stuðla þannig að betri námsárangri.

Elín Rós Bjarnadóttir,
skipar 2. sæti á framboðslista Frjáls afls.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024