Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Ný framtíðarsýn í ferðaþjónustu
Mánudagur 6. nóvember 2006 kl. 09:12

Ný framtíðarsýn í ferðaþjónustu

Af þeim atvinnugreinum sem eru við lýði á Íslandi í dag tel ég ferðaþjónustuna eiga mestu möguleikana til vaxtar og viðgangs í framtíðinni. Orkufrekur iðnaður er háður alheimskvótakerfi vegna Kyoto ákvæðis. Sókn í gullsins veigar hafdjúpanna er bundin kvóta á öllum nytjategundum og íslenskur landbúnaður er komin undir hatt takmarkaðrar framleiðslu vegna kvótakerfis. Það eru gildar ástæður fyrir takmörkunum á fyrrgreindum atvinnugreinum en því miður hefur nýliðun í sömu greinar verið erfið af sömu sökum. Ferðaþjónustan stendur hins vegar opin upp á gátt. Þó verður að gæta að næstu skrefum, leita inn á rétta markaði og tryggja skynsamlega en um leið öfluga landkynningu.

Átak í landkynningu

Íslenskra yfirvalda bíður það vandasama verk að ráðast í landkynningu á erlendri grundu. Veita þarf milljörðum en ekki milljónum á næstu árum í slíkt verk. Ég leyfi mér að fullyrða að tekjurnar munu ekki láta á sér standa ef rétt verður að verki staðið. Íslensk náttúra, saga okkar & menning eru heillandi og með réttri kynningu er hægt að tryggja heimsóknir frá tugþúsundum efnaðra ferðamanna sem eru reiðubúnir að greiða mikið fé fyrir réttu vöruna. Hana eigum við og okkur ber að nýta hana á skynsamlegan & sjálfbæran hátt. Það dugar ekki að einstaka stórfyrirtæki njóti opinbers fjármagns við landkynningu og dragi vagninn í þessum efnum. Aldrei dettur mér í hug að halda því fram að slík fyrirtæki skili ekki árangri en þau auðvitað kynna sig á sínum forsendum en ekki fyrir heildina. Opinbert fjármagn til landkynningar er nauðsynlegt á meðan atvinnugreinin er ung og óþroskuð eins og raun ber vitni.

Ávinningur af stórsókn í ferðaþjónustu

Með stórsókn inn á spennandi markaði opnast fjölbreyttir möguleikar fyrir eldri & yngri fyrirtæki í landinu svo ekki sé minnst innkomu nýrra fyrirtækja með stærri markaði. Uppbygging þemagarða sem hlíft geta ferðamönnum við misjafnri veðráttu er spennandi kostur. Slíkir garðar eru þekktir í Bandaríkjunum og eru gífurlegt aðdráttarafl fyrir ferðamenn allt árið um kring. Í dag veitum við milljörðum af opinberu fé til hefðbundinna atvinnugreina en ekki ferðaþjónustunnar. Framtíðarávinningur af kraftmikilli landkynningu er augljós. Störfum mun fjölga og þjóðartekjur aukast án þess að gengið sé á náttúruna með nokkrum hætti. Hugvit, áræðni og einörð útsjónarsemi getur fleytt okkur til hæstu hæða í samkeppni okkar við aðrar þjóðir á sviði ferða- & afþreyingarþjónustu. Landlega okkar, veðurfar, fórnir og saga eru einstök fyrirbrigði. Kraft og áhuga íslenskra ungmenna ber að virkja með réttum hætti svo þau hin sömu geti kynnt sérstöðu okkar í gegnum ferðaþjónustu framtíðarinnar.

Gunnar Örn Örlygsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024