Nú þarf að leggja spilin á borðið!
– Hannes Friðriksson skrifar
Stjórnkerfi okkar er sagt vera þannig upp byggt að erfitt eigi að vera að fara sínu fram án þess að hafa til þess leyfi. Þetta er gert til að vernda borgara og samfélög gegn yfirgangi þeirra sem meira mega sín, og að tryggt sé að farið sé eftir þeim reglum er menn hafa orðið sammála um að skuli gilda. Engum dettur þennig í huga að láta teikna teikningar af húsi á lóð án þess að hafa áður fengið lóðina fyrst . Flestum þætti það svo sennilega bratt í lagt að sá er ekki hefði hagað sínum málum í samræmi við lög og reglugerðir gæti svo í kjölfarið sótt skaðabætur á þeim forsendum að hann hafði gert ráð fyrir að allt yrði samþykkt.
Málefni kísilvers Thorsil virðast stöðugt taka á sig nýja og furðulegri mynd. Á sama tíma og auglýst er tillaga að deiliskipulagsbreytingu svo kísilverið geti yfirleitt orðið að veruleika eða íbúar komið með athugasemdir og í samræmi vð lög og reglugerðir virðast bæjaryfirvöld vilja láta líta svo út að málið sé komið of langt til að unnt sé að stöðva það. Hvað ætla menn að gera ef athugasemdir við breytingu deiliskipulagsins verða þess eðlis að séð verður að vafi ríki um heilbrigði framkvæmdarinnar?
Álit Skipulagstofnunar þar sem fram kemur að loftgæði íbúa Reykjanesbæjar verði verulega skert og sérstaka vöktun með tilliti til mengunar þurfi á ákveðnum svæðum myndi í flestum tilvikum þykja býsna alvarleg tíðindi og jafnvel koma í veg fyrir framkvæmdir. Sú athugasemd hefði til að mynda ekki geta komið fram af hálfu íbúa á fyrri stigum málsins þar sem bæjaryfirvöld vildu nú að menn hefðu mótmælt eða haft áhyggjur. Sú staðreynd varð engum ljós fyrr en með útgáfu álits Skipulagstofnunar í byrjun apríl. Fyrr höfðu sérfræðingarnir ekki talað og gefið sína niðurstöðu sem vekur nú þann vafa er taka þarf tillit til. Við skulum hlusta á sérfræðinganna.
Sé það svo sem bæjaryfirvöld virðast nú gefa í skyn að málið sé of langt komið til að unnt sé að stöðva það, … án þess að deiliskipulag hafi verið samþykkt, … án þess að gefið hafi verið út framkvæmdarleyfi, … án þess að samþykktar hafi verið teikningar eða gefið út starfsleyfi er ljóst að eitthvað alvarlegt er að og ekki hafi verið farið að þeim skilmálum sem til slikra framkvæmda eru gerðar. Þá hlýtur það að vera eðlileg krafa okkar bæjarbúa sem gert verður að búa við VERULEGA SKERT LOFTGÆÐI um langa framtíð að bæjaryfirvöld leiði sannleikann í ljós og leggi öll spil á borðið. Það væri að minnst kosti viðleitni til að leyfa lýðræðinu að hafa sinn gang.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson