Nú skín sól um Suðurnes sem aldrei fyrr
Suðurnesjasólin hefur sjaldan skinið skærar, og veitti okkur góðan yl í gegnum stofugluggana nú um helgina rátt fyrir kulda og trekk úti fyrir. Hún boðar okkur vorið og breytingar framundan. Prófkjör Samfylkingarinnar um síðustu helgi er einmitt dæmi um slíkar breytingar, opið prófkjör þar sem öllum íbúum á Suðurlandi var gert mögulegt að velja sér frambjóðendur á lista. Og þann möguleika nýttu tæplega tvöþúsund og fjögurhundruð manns sér.
Ljóst er að prófkjör þetta var merkilegt fyrir margra hluta sakir og ánægjulegt að sjá hve vel þessi fyrsta tilraun með netkosningu tókst. Og margt sem af henni verður hægt að læra sé til framtíðar litið. Mikil endurnýjun hefur orðið á lista flokksins og sterkir einstaklingar sem þar bjóða sig fram
Fyrir okkur íbúa á Suðurnesjum var þetta prófkjör sigur samstöðunnar þar sem okkur tókst að tryggja okkar frambjóðanda öruggt sæti á listanum, og ætti það að verða okkur hvatning og áminning um hver styrkur okkar er í kjördæminu þegar við náum að snúa saman bökum sem þarna var. Oddný G Harðardóttir verður verðugur fulltrúi okkar á þingi fari svo fram sem horfir.
Fyrir þann sem öllu þessu olli Björgvin G Sigurðsson voru úrslit þessa prófkjörs persónulegur sigur, og um leið sigur lýðræðisins í landinu. Björgvin sem fyrstur manna í nóvember síðastliðnum orðaði að afsögn þeirrar rikistjórnar sem þá sat og sjálfur sagði svo af sér embætti í janúar og axlaði þar með sína ábyrgð á þeim hluta er að honum snéri fékk hér endurnýjað umboð kjósenda sinna til að leiða lista Samfylkingar í Suðurkjördæmi. Og það umboð hefur honum nú verið veitt, beint og milliliðalaust frá kjósendum og stuðningsmönnum flokksins.
Ljóst er að sá listi sem út úr prófkjöri þessu hefur komið endurpegla nokkuð vel kjördæmið allt og þær áherslur sem hvert byggðarlag stendur fyrir í svo stóru kjördæmi sem sem Suðurland er. Hlutur kvenna er þar stór og sýnir að það fyrirkomulag sem viðhaft var við kjörið hefur skilað því sem að var stefnt.
Framundan er stutt en snörp kosningabarátta þar sem tekist verður á um þau grunngildi sem sem við viljum að hér verði höfð að leiðarljósi við uppbyggingu þess þjóðfélags sem við viljum búa í . Uppgjör við þá frjálshyggju og eiginhagsmunapot sem leitt hefur til þeirrar stöðu sem nú er uppi og spurningunni um hvort ekki sé nú kominn tími á breytingar hvað það varðar. Að leiða fram fólk og flokka sem hafa stefnu jöfnuðar og félagshyggju að sínu leiðarljósi við úrlausn þeirra vandamála sem við stöndum frammi fyrir. Þeir frambjóðendur sem stuðningsmenn Samfylkingarinnar völdu um helgina eru öflugir talsmenn þeirra breytinga, sem þjóðin hefur nú þörf fyrir. Veitum þeim brautargengi okkar í vor.
Hannes Friðriksson