Nú er nóg komið!
Samfylkingin hefur verulegar áhyggjur af fjárhagsstöðu bæjarfélagsins og hefur margoft bent á að verið sé að eyða um efni fram og svo hafi verið í mörg undanfarin ár. Við erum að eyða rúmlega 20% ( 1 milljarður ) umfram það sem við öflum og erum því að ganga á eigið fé og nú er komið að skuldadögum.
Við erum á hægri leið í greiðslufall ef ekki verður gripið til stórfelldra aðgerða og leitað leiða til að rétta skútuna við. Hér þurfi að skoða öll málefni Reykjanesbæjar og tengdra fyrirtækja, ekkert má vera undanskilið.
Það hefur komið í ljós að fullyrðingar sjálfstæðismanna í aðdraganda kosninganna í vor um að fjármál Reykjanesbæjar væru í góðu lagi voru kolrangar.
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga er með nokkur sveitarfélög til sérstakrar skoðunar, einkanlega vegna skuldastöðu þeirra. Þar á meðal er Reykjanesbær.
Nefndin aðvaraði Reykjanesbæ á síðasta ári og vakti athygli á því að bregðast þyrfti við ef ný atvinnutækifæri myndu ekki skila auknum tekjum á árinu og að skuldir og skuldbindingar væru yfir viðmiðunarmörkun nefndarinnar þegar til lengri tíma væri litið.
Núna er nóg komið.
Friðjón Einarsson,
Oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.