Nú árið er liðið
„Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka“ kvað séra Valdimar Briem forðum og það er óhætt að segja að tíminn flýgur og árin renna sitt skeið eitt af öðru. Þegar litið er yfir árið 2013 sem nú er að hverfa yfir móðuna miklu þá má með sanni segja að það hafi verið viðburðaríkt fyrir mig persónulega en einnig Íslendinga alla. Ekki síst í ljósi þess að í apríl síðastliðnum fóru fram alþingiskosningar og þjóðin kaus til valda tvo gamalkunna flokka, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Flokka sem hafa verið miklir örlagavaldar í okkar litla samfélagi allt frá öndverðri síðustu öld. Það kom þó ekki á óvart að þessir flokkar skyldu hljóta góða kosningu enda fóru þeir með himinskautum í loforðum sínum og eðlilegt að fólk gæfi þeim tækifæri á að standa við þau.
Ný stjórn, nýjar áherslur
Það er kunnara en frá þurfi að segja að núverandi stjórnarflokkar náðu á þremur vikum að pússa saman stefnuyfirlýsingu sem hafði glæsta framtíðarsýn að leiðarljósi. Nú skyldi slegið í klárinn og íslensku samfélagi komið á fætur eftir mögur ár. Það kom í ljós á sumarþinginu hver forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar er, kom hún það þeim sem ött höfðu kappi við þessa flokka í kosningunum ekki á óvart. Fjárlögin sem síðan voru lögð fram í haust tóku síðan af allan vafa, þeir sem töldu að tíma niðurskurðar væri lokið komust að öðru, skorið er niður á öllum sviðum í ríkisrekstrinum og í raun engu eirt. Jöfnuði skal náð í rekstrinum og til þess að svo megi verða er niðurskurðarhnífnum brugðið á loft. Við sem skipum minnihluta á þingi höfum að sjálfsögðu mótmælt þessu og bent á að ríkisstjórnin hafi afsalað sér stórum tekjupóstum eins og t.d. veiðleyfagjaldi og auknum gistináttaskatti sem hefðu gefið okkur möguleika á að reka öflugt velferðarkerfi. Tekjum sem hefðu einnig getað nýst í og viðhaldið hinni metnaðarfullu fjárfestingaráætlun síðustu stjórnar sem miðaði að því að auka rannsóknir, nýsköpun og þróun nýrra atvinnutækifæra.
Samfélagssýn
En þjóðin kaus og valdi sér þessa flokka til valda og við því er ekkert að segja, við sem erum í minnihluta á þingi verðum að veita þeim aðhald og reyna eftir fremsta megni að koma okkar áherslum í gegn. Við í Bjartri framtíð munum ótrauð halda áfram þeirri viðleitni að byggja upp og tryggja sanngjarnt, frjálst og opið samfélag, þar sem leitast er við að halda á lofti grunngildum íslenskrar hefðar, frelsi, jafnrétti, trausti, virðingu, og heiðarleika. Samfélag þar sem enginn þarf að þjást af mismunun, fátækt, atvinnuleysi eða skorti á menntun. Samfélag sem tryggir okkur meiri fjölbreytni, minni sóun, meiri stöðugleika, samfélag sem er laust við efnahagslegar kollsteypur. Samfélag þar sem ríkir minna vesen og fólk er laust við óþarfa áhyggjur og getur treyst því að hlutir virki fljótt og vel. Björt framtíð leggur ríka áherslu á meiri sátt í íslensku samfélagi og við viljum breyta stjórnmálunum. Vinna að friði. Við viljum tala af virðingu og sanngirni um hvert annað. Þannig eflum við traust. Björt framtíð trúir því að sameinuð leysum við öll þau vandamál sem að íslensku þjóðfélagi steðja. Svona höfum við starfað síðan við vorum kosin á þing og munum halda því áfram.
Með von í hjarta
Ég óska þess innilega að Íslendingar horfi til ársins 2014 með von í hjarta og þá trú að við getum haldið endurreisn landsins áfram. Endurreisn sem byggir á traustum stoðum jafnræðis, þar sem jöfn tækifæri og aðgengi allra þegna landsins að grunnstoðum velferðarríkis, þ.e. menntun og heilsugæslu, verði tryggt. Við erum með hruflað orðspor og samhugur okkar Íslendinga er laskaður eftir fjármálaóveðrið, en við höfum sem betur fer ekki misst baráttuandann, viljann og getuna til að byggja upp samfélag sem skapar okkur gott orðspor og velsæld á nýjan leik.
Jólin eru góður tími til að hafa í huga að endurreisnin okkar byrjar með hugarró og samhug fjölskyldunnar og samfélagsins alls, þannig beislum við hugaraflið og krafta til góðra verka.
Ég óska ykkur kæru Suðurnesjamenn gleðilegra jóla og farsællar uppbyggingar á nýju ári.
Páll Valur Björnsson
þingmaður Bjartrar framtíðar.