NOW air
Lokaorð eftir Ingu Birnu Ragnarsdóttur
Hver fjárfestahópurinn á fætur öðrum er þessa dagana að míga utan í þrotaeignir WOW air eða snusa af holunni sem þrot flugfélagsins skildi eftir sig í leit að skjótfengnum gróða. Ekki nema von að menn sjái tækifæri í stöðunni þegar flugfargjöld eftirlifandi samkeppnisaðila stórhækkuðu yfir nótt - engum til neinnar gleði, nema hluthöfum.
Kaffistofur landsmanna eru uppfullar af sjálfskipuðum flugrekstrarsérfræðingum og um fátt annað talað, nema kannski hversu gott sumarið hefur verið, amk. hér á suðvesturhorninu.
Skal engan undra.
Fall WOW air hafði nefnilega ekki bara djúpstæðari áhrif á hagkerfið Ísland en nokkurn hefði órað heldur líka þjóðarsálina. Nýjustu tölur sýna 20% samdrátt í fjölda ferðamanna til Íslands milli ára. 2018 var vissulega metár en svona gríðarlegar sveiflur eru mjög erfiðar, sér í lagi eftir miklar fjárfestingar í uppbyggingu á ferðaþjónustu, hvort sem um ræðir einkaaðila eða hið opinbera.
Áhrifin eru víða, en helst þó á ferðaþjónustuna og tengdar greinar. Tengdar greinar eru ekki bara flugþjónustuaðilar, bílaleigur, afþreyingarfyrirtæki, lundabúðir, hótel og veitingastaðir. Það verða allir fyrir áhrifum, hvort sem þau eru bein eða óbein. Sem dæmi verður ríkið (lesist: við þjóðin) af miklum tekjum í formi virðisaukaskatts og afkoma ríkissjóðs versnar.
Atvinnuleysi hefur aukist. Atvinnuleysi er sérstakt fyrirbæri. Það er mælt sem % af vinnuaflinu en fyrir einstakling þá upplifir hann ekki atvinnuleysi sem %. Annað hvort er hann með vinnu (0% atvinnuleysi) eða ekki (100% atvinnuleysi). Að vera ekki með vinnu skapar mikla streitu og setur allar áætlanir í uppnám. Aukið atvinnuleysi veldur sömuleiðis óvissu í hagkerfinu og óvissa hefur alltaf neikvæð áhrif á fólk. Það frestar fjárfestingum og dregur úr neyslu. Fyrirtæki draga úr ráðningum á starfsfólki, fækka jafnvel fólki og fresta fjárfestingum. Allt þetta hægir enn frekar á hagkerfinu. Seðlabankinn er meira að segja farinn að taka upp á því að lækka vexti - svo alvarlegt er ástandið.
Íslenska hagkerfið byggir á þremur meginstoðum: Orku, sjávarafurðum og ferðaþjónustu. Svo mikil sveifla í einni af þessum grunnstoðum íslenska hagkerfisins hefur einfaldlega of alvarleg og of víðtæk áhrif á þetta litla hagkerfi til að láta hana afskiptalausa.
Í ljósi síðustu talna af samdrætti í fjölda ferðamanna til landsins þá er það einfaldlega ábyrgðarleysi að láta það í hendur eins lögfræðings og leyfa honum að maka krókinn af því að selja aðgöngumiða að þessari ferðamannaperlu sem Ísland er. Ég skora því á stjórnvöld að taka yfir þetta ferli og koma planinu NOW air í gang, núna.