Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Notkun byggðasjóða ESB í fjármálakreppunni
Miðvikudagur 15. apríl 2009 kl. 16:30

Notkun byggðasjóða ESB í fjármálakreppunni

Byggða- og félagsmálasjóðir Evrópusambandsins gegna lykilhlutverki í fjármálakreppunni sem nú ríður yfir Evrópu.  Gripið verður til ýmissa aðgerða til að bregðast við aðsteðjandi vanda með langtímasýn sambandsins um samkeppnishæfni, þekkingu, rannsóknir og nýsköpun að leiðarljósi.

Byggðaáætlanir Evrópusambandsins taka til sjö ára í senn en sú áætlun sem nú er í gildi hófst árið 2007 og lýkur árið 2013. Áður en hvert tímabil hefst gera stjórnvöld, í einstöku aðildarríki, bindandi samkomulag við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um það hvernig  þau hyggjast vinna að framkvæmd byggðastefnunnar í sínu landi á sama tímabili.  Þetta er sk. aðgerðaráætlun (e. Operational Plan) og ber að vinna hana í samráði við sveitarfélög, fyrirtæki og hagsmunasamtök, eftir því sem við á. Úthlutun úr byggðasjóðum ESB byggir á þessari aðgerðaráætlun og er almennt miðað við að styrkir séu greiddir út jafnt og þétt allt tímabilið.  Í samkomulagi ESB og aðildarríkis er einnig kveðið á um mótframlag viðkomandi ríkis og getur það verið frá  15% upp í 50% - mest hjá þeim sem hafa hæstar meðaltekjur.  Með öðrum orðum þurfa ríkustu aðildarríkin að leggja eina krónu til byggðamála, í sínu landi, á móti hverri krónu sem þau fá til byggðamála úr sjóðum ESB.  Samkvæmt reglum ESB geta mótframlög komið frá þeim aðilum sem vinna aðgerðaráætlanirnar en það er hvers ríkis að ákveða hvernig þau skiptast á milli þeirra.

Í endurreisnaráætlun ESB vegna fjármálakreppunnar, sem lögð var fram í lok síðasta árs, er m.a. gert ráð fyrir að reglum um byggðasjóðina verði breytt  á þann veg að þau ríki, sem þess óska, geta fengið stærstan hlut af styrk sínum greiddan út á fyrri hluta tímabilsins.  Þau ríki sem ekki sjá fram á að geta reitt fram mótframlag sitt á sama tíma geta leitað til Evrópska Fjárfestingabankans um lán en einnig geta þau óskað eftir því að fá að greiða sinn hlut allan í lok tímabilsins.  Ýmis önnur ráð standa þeim einnig til boða, m.a. fjármála- og fjárfestingaráðgjöf. Flest aðildarríki ESB hafa tekið þessari breytingu fagnandi og hafa tekið til óspilltra málanna við að endurskoða áætlanir sínar.

„Græn Evrópa“ með vistvæna orkugjafa, -landbúnað, -matvælaframleiðslu, -ferðaþjónustu og svo mætti lengi telja er sú framtíðarsýn sem Evrópusambandið hefur að leiðarljósi í endurreisnaráætlun sinni.  Aðildarríkin keppast nú við að móta áætlanir sem byggja á þessari sýn.  Unnið er að því að skipuleggja nám sem býr fólk undir störf á þessu sviði og er þar einkum horft til þeirra sem eru atvinnulausir.  Verulegir fjármunir verða settir í lítil og meðalstór fyrirtæki sem leggja áherslu á að þróa vistvænar lausnir og rannsókna- og menntasetur munu fá aukna fjármuni.  Fyrirhugaðar aðgerðir eru skipulagðar í náinni samvinnu ráðuneyta, sveitarfélaga, stéttarfélaga og annarra hagsmunaaðila.

Anna Margrét Guðjónsdóttir
forstöðumaður í Brussel
Höfundur skipar 4. sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024