Nostalgía „á flugi“

Lokaorð Örvars Þór Kristjánssonar

Það eru að mér skilst fjórtán bandarískar F15 herþotur á Keflavíkurflugvelli við æfingar um þessar mundir sem færa bæjarbúum mismikla gleði eða ógleði. Hávaðinn sem þeim fylgir er mikill og eðlilega er erfitt að taka ekki eftir þeim.

Fjörugar umræður hafa sprottið fram á samfélagsmiðlum um málið og með mikilli aukningu á almennri flugumferð yfir Reykjanesbæ þá finnst mörgum þetta vera orðið einum of mikið. Vissulega eru það mikil læti sem fylgja þessum vélum og skilur maður svo sem gremju fólks en fyrir mína parta þá færa þessar þotur mér ekkert nema minningar um gamla góða tíma. Þótt mér finnist það persónulega eins og það hafi gerst í gær þá eru rúmlega tólf ár síðan Varnarliðið kvaddi okkur Íslendinga og héldu héðan af landi brott af Miðnesheiðinni. Nýjar kynslóðir eru að alast upp og hafa þær jafnvel enga minningu um veru Varnarliðsins hér á landi eða öll þau áhrif sem Varnarliðið hafði á líf okkar.  

Þegar ég heyri í herþotunum þá spretta upp margar gamlar og góðar minningar tengdar „Vellinum“ enda skipaði hann mikinn sess í sögu okkar Suðurnesjamanna (þjóðarinnar allrar). Pabbi minn heitinn vann lengi vel uppá Velli og það var ýmislegt góðgætið sem hann kom með niðureftir handa okkur fjölskyldunni sem ekki var hægt að fá með öðrum leiðum. Butterball-kalkúnninn var það sem ég man best eftir, hvernig kallinn fór að því að smygla 10–12 kg kalkúna niðureftir ... lærði það svo seinna sjálfur. Fékk þann heiður að starfa fyrir Varnarliðið sjálfur um tíma, stór og fjölbreyttur vinnustaður en mín eftirminnilegasta vinna þar var í Messanum. Þar kynntist maður mörgum skemmtilegum karakterum og lærði helling, t.d réðu þeir mig sem kokk eitt sumarið, engum varð meint af (svo ég viti) en ég hafði ekki svo mikið sem soðið egg áður en ég byrjaði. Mér var hreinlega bara kennt ýmislegt og fyrir það er ég afar þakklátur.

Eitt af grunnskilyrðum þess að fá vinnu hjá hernum var að geta talað ensku sómasamlega. Þrátt fyrir það voru nokkuð margir sem störfuðu þarna sem kunnu nánast ekkert í enskunni þ.á.m. faðir minn. Margar góðar sögur eru til af pabba heitnum sem kunni afar takmarkað í ensku en reddaði sér samt alltaf, hann vann í mörg ár í Messanum. Eitt skiptið þá kemur pabbi til vinnu, svartaþoka var úti og þegar hann gengur inn ganginn fyrir aftan Messann þá standa þar nokkrir bandarískir yfirmenn. Þeir bjóða honum góða kvöldið og eru að ræða eitthvað saman, pabbi vildi eitthvað taka þátt í samræðunum og vildi benda þeim á þessa miklu þoku sem væri komin fyrir utan. Eins og flestir vita er þoka á ensku, fog. Pabbi segir við þá eftir að þeir bjóða honum góða kvöldið, „there is plenty of fock outside tonight“ og ég hefði viljað sjá svipinn á þessum ágætu hermönnum en samkvæmt sjónarvottum þá urðu þeir ansi hissa en voru fljótir að kíkja út til þess að sjá hvað væri í gangi.

Pabbi gerði eins og hann var vanur, rúllaði upp næturvaktinni enda duglegur og afar ósérhlífinn maður.