Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Norræna félagið í Garði 5 ára í dag
Föstudagur 3. febrúar 2012 kl. 00:52

Norræna félagið í Garði 5 ára í dag


Norræna félagið í Garði verður 5 ára föstudaginn 3. febrúar. Félagið var stofnað þann 3. febrúar 2007 í Samkomuhúsinu í Garði og voru stofnfélagar um 25. Góðir gestir komu á fundinn frá Norræna félaginu á Íslandi, voru það Gylfi Gunnarsson, Sigurlín Sveinbjarnardóttir og Unnar Stefánsson. Farið var yfir starfsemi norrænna deilda, lög félagsins og fleira en auk þess var flutt tónlistaratriði og borið fram kaffi og með því.

Fyrsti formaður deildarinnar var Jónína Holm, Bragi Einarsson tók við af henni tveimur árum seinna en formenn eru kosnir til tveggja ára í senn. Núverandi formaður er Erna M. Sveinbjarnardóttir og aðrir í stjórn eru Kristjana Kjartansdóttir, ritari, Jónína Holm, gjaldkeri og meðstjórnendur eru Einar Jón Pálsson og Bragi Einarsson, í varastjórn er Auður Vilhelmsdóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eitt af fyrstu verkum deildarinnar var að leita fyrir sér um vinabæi sem mynda mætti tengsl við. Valdi stjórnin vinabæjarkeðju sem í voru bæirnir Lemvig í Danmörku, Nybro í Svíþjóð, Jevnaker í Noregi og Alaharma í Finnlandi. Fljótlega komust á formleg samskipti á milli Garðs og þessarra bæja en venjan er sú að samvinna vinabæja er bæði á sveitarstjórnarstigi og í norrænu félögunum á hverjum stað. Vinabæjarmót eru haldin annað hvert ár, Garður sendi tvo fulltrúa á mót í Nybro vorið 2010 og boðið hefur verið til norrænna daga í Lemvig í maí. Ef til vill er það ánægjulegasti þátturinn í norrænu samstarfi þegar sveitarfélag er gestgjafi á vinabæjarmóti og tekur á móti góðum gestum, frændum okkar frá hinum Norðurlöndunum. Sýna þeim það helsta sem við erum stolt af og ræða saman um allt það sem við eigum sameiginlegt eða aðgreinir okkur. Einnig er afar ánægjulegt þegar hópar eins og kórar, íþróttafélaög eða aðrir geta mæst á þessum norræna vettvangi.

Einnig á Norræna félagið á Íslandi afmæli en það er 90 ára í ár. Félagið á rætur sínar að rekja til ótryggs stjórnmálaástands á árunum rétt fyrir fyrri heimsstyrjöldina sem varð til þess að konungar Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar ákváðu að efna til formlegs samstarfs sín á milli árið 1914. Í kjölfarið voru Norrænu félögin stofnuð hvert í sínu landi. Fyrstu félögin í Danmörku, Noregi og Svíþjóð 1919 og Norræna félagið á Íslandi 29. september árið 1922. Félagið stendur fyrir margvíslegri starfsemi á borð við tungumálanámskeið, fyrirlestra, ferðalög o.fl. en að auki hefur félagið umsjón með verkefnum svo sem Norræna bókasafnsvikan, Nordjobb og Halló Norðurlönd, auk þess að bera ábyrgð á rekstri norrænu upplýsingaskrifstofunnar á Akureyri.

Norræna félagið starfar í 30 félagsdeildum um allt land. Starf félagsdeildanna er mjög fjölbreytt, en víða er kjölfesta deildanna norrænt vinabæjasamstarf, ungmennaskipti, viðburðahald og samstarf við viðkomandi sveitarfélag um norræn verkefni. Norræna félagið er félag í vexti og fjölgar félagsdeildum reglulega.

Formlegt samstarf Norðurlandanna er meðal elsta og umfangsmesta svæðasamstarfs í heimi. Pólitíska samstarfið byggir á sameiginlegum gildum og vilja til þess að ná árangri sem stuðlar að öflugri þróun og eykur færni og samkeppnishæfni Norðurlanda.