Norðurál í Helguvík
Reykjanesbær og nærliggjandi byggðir standa nú frammi fyrir stórkostlegu tækifæri. Norðurál í Hvalfirði hefur lýst yfir áhuga á byggingu nýs álvers í grennd við Helguvík á norðanverðu Reykjanesi. Í Helguvík er að finna nýja og fullkomna stórskipunarhöfn.
Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur sýndu á dögunum sameiginlegan áhuga fyrir orkuöflun fyrir hið nýja álver. Nú þegar, að hálfu Norðuráls í Hvalfirði, eru hafnar verkfræðilegar athuganir um framtíðarstaðsetningu á væntanlegu álveri í grennd við Helguvíkurhöfn. Til samanburðar má nefna að framkvæmdir Hitaveitu Suðurnesja á Reykjanesvirkjun eru hafnar og mun sú virkjun skila u.þ.b. 100 MW. Orkan úr Reykjanesvirkjun verður flutt til Norðuráls í Hvalfirði. Aðkoma Hitaveitu Suðurnesja að orkuöflun fyrir Norðurál í Hvalfirði er í samvinnu með Orkuveitu Reykjavíkur sem er leiðandi í orkuöflun fyrir þá stækkun sem nú er að eiga sér stað á álverinu í Hvalfirði.
Við verkefnið sem framundan er í Helguvík má því segja að um stólaskipti verði að ræða hjá orkufyrirtækjunum tveimur. Hitaveita Suðurnesja þarf nú á dyggum stuðningi Orkuveitu Reykjavíkur að halda svo tryggt verði að orkuöflun verði fullnægjandi fyrir nýtt álver í Helguvík, Frá viðskiptalegum sjónarmiðum er Helguvík einn besti kosturinn ef ekki sá allra besti í landinu fyrir nýtt álver. Skal því engan undra að fyrirtækið Norðurál skuli sýna metnað og áhuga fyrir byggingu álvers í Helguvík.
Útlitið er bjart en með samátaki er hægt að afla orku fyrir álverið. Áætluð orkuþörf fyrir 250.000 tonna álver er u.m.þ. 350 MW. Víða á Reykjanesi eru vænlegir virkjunarstaðir og er það sammerkt með þeim öllum að geta aflað orku með jarðvarma. Virkjanaframkvæmdir eru fjárfrekar en að sama skapi er framtíðarávinningur fólginn í fjárfestingum af þessu tagi.
Það er jákvætt, í ljósi reynslu okkar frá virkjanaframkvæmdum við Kárahnjúka og þá uppbyggingu sem er að eiga sér stað á Reyðarfirði, að raunveruleg þensluáhrif sömu framkvæmda hafa verið langtum minni en áætlað var við upphaf framkvæmda. Í raun hefur þensla á fasteignamarkaði eignað sér helming þeirrar bólgu sem mælst hefur að undanförnu.
Það er í raun allt sem syngur með álveri í Helguvík. Í Reykjanesbæ hefur verið lyft grettistaki á allra síðustu árum. Bærinn hefur þróast í að vera eitt eftirsóttasta sveitarfélag landsins og hefur uppbyggingin á síðustu árum verið til fyrirmyndar. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, hefur líst yfir velþóknun sinni á fyrirhuguðu verkefni í Helguvík en hún heimsótti svæðið á dögunum í fylgd Árna Sigfússonar, bæjarstjóra í Reykjanesbæ. Í kjölfarið fóru fjölmargir bæjarfulltrúar, bæjarstjórar, og verkalýðsleiðtogar af Suðurnesjum ásamt nokkrum alþingismönnum, í heimsókn til Norðuráls í Hvalfirði. Forsvarsmenn Norðuráls gerðu þar grein fyrir áhuga sínum og notuðu jafnframt tækifærið til að upplýsa gesti nánar um álframleiðsluna, áhrif hennar á umhverfið og mannlífið. Við sömu kynningu steig Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi, upp og lofaði með skeleggum hætti þau miklu og jákvæðu áhrif sem álverið í Hvalfirði hefur haft á nærliggjandi byggðir, þ.m.t. Akranes.
Með nýju álveri í Helguvík verður um stórkostlegan ávinning að ræða fyrir nærliggjandi byggðir. Meðallaun starfsmanna hjá stóriðjufyrirtækjum er töluvert hærri en landsmeðaltal launa. Stoðfyrirtæki s.s. verktakar, innflytjendur, skipafélög og fleiri fá einnig spennandi verkefni á meðan byggingartíma stendur og einnig samhliða rekstri álvers eftir uppbyggingu.
Í náinni framtíð mun reyna á þverpólitíska samstöðu bæði hjá ríki og borg um hið mikla verkefni sem framundan er. Aðkoma Orkuveitu Reykjavíkur er afar mikilvæg framkvæmdunum og hefur framsóknararmurinn í R-listanum í Reykjavík sýnt með afgerandi hætti fram á stuðning sinn til verkefnisins. Það kemur engum lengur á óvart þegar Vinstri Grænir segja nei og er því boltinn greinilega hjá Ingibjörgu Sólrúnu og félögum hennar í Samfylkingararmi R-listans í Reykjavíkurborg.
Gunnar Örn Örlygsson
Alþm. í þingflokki sjálfstæðismanna
Efri myndin: Samsett mynd af Helguvík og álveri Norðuráls á Grundartanga. Unnin af Víkurfréttum og sett inn til skreytingar.