Nokkur orð um Sandgerðisbæ og Fasteign
Í síðustu viku var gengið frá breytingum á Eignarhaldsfélaginu Fasteign og þar með sér loks fyrir endann á vinnu sem hefur tekið meira en tvö ár.
Forsendur fyrir rekstri Fasteignar brustu við hrunið árið 2008 og er hálfkláruð Hljómahöllin í Reykjanesbæ minnisvarði þess. Hjá okkur Sandgerðingum birtust þessi vandamál félagsins í vandræðum við fjármögnun nýbyggingar Grunnskólans og erfiðleikum við að standa undir snar hækkandi skuldbindingum. Eftir sveitarstjórnarkosningar 2010 var farið að skoða ýmislegt í rekstri félagsins og kom í ljós að margt mátti betur fara. Fulltrúi Sandgerðisbæjar í stjórninni hafði frumkvæði að því að ýmsum steinum var velt innan félagsins og má segja að það hafi verið upphafið að þeirri endurskoðunarvinnu sem nú er að komast á endapunkt. Þessi vinna hefur verið í senn tímafrek og flókin enda miklir hagsmunir í húfi og margir aðilar sem að málinu koma. Það samkomulag sem nú liggur fyrir er ekki fullkomið og ýmislegt í því sem mætti gagnrýna út frá hagsmunum sveitarfélaganna. Nýju leigusamningarnir eru þó betri en þeir gömlu þegar litið er til þess að greiðslubyrðin léttist til muna fyrstu árin og endurkaup eigna verða í senn auðveldari og ódýrari. Þá er stór kostur að nýir samningar eru einungis í íslenskum krónum en ekki að stórum hluta í erlendri mynt eins og þeir fyrri voru.
Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar hefur haft það markmið að kaupa eignir sínar til baka af Fasteign og með nýjum leigusamningum verður það auðveldara en áður. Í kjölfar hinna nýju samninga mun Sandgerðisbær væntanlega leysa um helming eigna sinna til baka út úr Fasteign, bæta þar með skuldastöðu sína töluvert og laga rekstrarstöðuna um leið. Því miður náðist ekki að klára þessar breytingar á árinu 2012 sem þýðir að þegar ársreikningar sveitarfélaga verða bornir saman í vor munu Sandgerðingar enn vera á toppi skuldalistans. Það mun hins vegar breytast þegar árið 2013 verður gert upp og skuldaprósenta Sandgerðisbæjar sem hlutfall af árstekjum verður komið niður fyrir 250%.
Þeir sem hafa fylgst með bæjarpólitík í Sandgerði vita að ég hef aldrei verið sérstaklega hrifinn af viðskiptum Sandgerðisbæjar við Fasteign. Þessu til stuðnings get ég bent á afstöðu mína í bæjarstjórn þegar samningar voru gerðir við Fasteign á árunum 2004-2010. Eins hef ég bókað eitt og annað í bæjarstjórn í gegnum tíðina varðandi félagið og benti m.a. á gjaldeyrisáhættuna sem fylgdi leigusamningunum strax árið 2004. Ég tel hins vegar að sú ákvörðun sem bæjarstjórn Sandgerðisbæjar tók 18. janúar sl. um að ganga að nýjum samningum sé skynsamleg til að verja hagsmuni bæjarfélagsins út frá þeirri stöðu sem uppi er í dag. Sandgerðingar verða að vísu enn bundnir með hluta eigna sinna í Fasteign, en mun minna hlutfall en áður og bæjarsjóður verður í betri stöðu til að styðja við bæjarfélag í sókn.
Ólafur Þór Ólafsson
forseti bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar