Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Nokkur orð um könnun meðal íbúa Vatnsleysustrandarhrepps
Þriðjudagur 4. október 2005 kl. 15:43

Nokkur orð um könnun meðal íbúa Vatnsleysustrandarhrepps

Í desember sl. fékk sveitarstjórn Vatnsleysustrandarhrepps ráðgjafar- og rannsóknafyrirtækið ParX til að kanna hug íbúa til sameiningar hreppsins og annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum. Ýmis orð hafa verið látin falla um ofangreinda könnun með það að markmiði að gera niðurstöður hennar með einum eða örðum hætti tortryggilegar. Í kjölfar ofangreindra umræðna vill ParX hér með gera grein fyrir atvikum máls og forsendum könnunarinnar

Aðdragandi könnunarinnar
Sameiningarnefnd félagsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga setti í fyrra fram tillögu um að sveitarfélögin Vatnsleysustrandar-hreppur, Garður, Grindavík, Reykjanesbær og Sandgerði sameinuðust í eitt sveitarfélag.

Tillaga þess efnis var send til viðkomandi sveitarstjórna sem allar fjölluðu um málið. Allar nema Vatnsleysustrandarhreppur afgreiddu málið sjálfar og sendu þau skilaboð til baka að ekki væri vilji fyrir sameiningunni.

Um íbúalýðræði í Vatnsleysustrandarhreppi
Kjörnir fulltrúar Vatnsleysustrandarhrepps mátu þetta svo að vilji íbúa hreppsins þyrfti að koma fram áður en svo mikilvægu málefni væri svarað.

Markmið könnunarinnar var því að fá fram afstöðu íbúanna til ólíkra sameiningarkosta. Þeir sem deilt hafa á könnunina hafa kosið að líta fram hjá þessu atriði.

Á þeim tíma þegar könnunin var framkvæmd hafði ekki farið fram nein umfjöllun um sameiningu Vatnsleysustrandarhrepps við önnur sveitarfélög. Sveitarfélagið hafði áformað að halda opinn borgarafund um málið en þar sem ekki gafst tími til þess sendi hreppsnefndin út bréf þar sem íbúar voru hvattir til þess að hugleiða þessi mál. Í bréfinu var könnunin jafnframt boðuð.
Í ljósi ofangreinds var farin eftirfarandi leið. Fyrsta spurning könnunarinnar laut að því hvort að fólk hefði kynnt sér efni bréfsins frá hreppsnefndinni. Önnur spurning könnunarinnar var “Gætir þú hugsað þér að Vatnsleysustrandarhreppur sameinaðist einhverju öðru sveitarfélagi eða sveitarfélögum”. Þessi spurning er að mati ParX góð leið til þess að ná því markmið að geta greint frá þá er voru andvígir en fá fram viðhorf þeirra er gætu hugsað sér einhverskonar sameiningu. “Hinum andvígu” var að sjálfsögðu til haga haldið í allri túlkun niðurstaðna.
Í framhaldinu voru þeir er gátu hugsað sér sameiningu af einhverju tagi beðnir að lýsa áliti sínu á fjórum sameiningarkostum. Að sjálfsögðu voru margir aðspurðra andvígir hverjum þeirra sameiningarkosta er lýst var í könnuninni þrátt fyrir að geta hugsað sér sameiningu við eitthvert annað sveitarfélag.
Til að auka áreiðanleika niðurstaðna enn frekar var valin sú leið að úrtak könnunarinnar innihéldi alla kosningabæra einstaklinga í sveitarfélaginu þ.e. úrtakið var hið sama og þýðið. Ekki spillti fyrir að svarhlutfallið var 80%.

Um næstu helgi verður kosið um þann sameiningarkost sem hugnaðist umtalsvert fleiri íbúum hreppsins fyrir rúmum 9 mánuðum en tillaga sameiningarnefndar félagsmálaráðuneytisins.

Hin eiginlega könnun er auðvitað sjálf kosningin næstkomandi laugardag. Að henni lokinni þarf fólki ekki að blandast hugur um vilja íbúa hreppsins.


Bestu kveðjur,
Heiður Agnes Björnsdóttir
Rannsóknarstjóri
Parx viðskiptaráðgjöf IBM
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024