Nokkur ljós í myrkrinu
Myrkrið er dimmt og mikið þessa dagana enda stutt í stysta dag ársins. Þrátt fyrir myrkraríki í atvinnulífi og á köflum mannlífi svæðisins af þeim sökum er vert að minnast nokkurra bjartra ljósa þessa dagana. Þar sem atvinnan er jú forsenda alls þá bendum við fyrst á umfjöllun um sérlega jákvæða og gríðarlega öfluga starfsemi sem fram fer í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Við höfum jú sagt og erum óþreytt á því að hún er stóriðja Suðurnesjamanna. Við hittum forstjóra Isavia, Björn Óla Hauksson og fjöllum um helstu þætti fyrirtækisins sem er einn af stærstu vinnuveitendum í flugstöðinni. Hjá fyrirtækinu starfa um 500 manns en við getum síðan um fjórfaldað þá tölu þegar við tölum um fjölda starfa sem tengjast flugstöðinni hjá hinum ýmsu aðilum. Nú í haust fengu til að mynda tæplega 40 sumarráðnir starfsmenn fastráðningu hjá Isavia. Það er ekki svo lítið. Miðað við farþegaspár þá er ljóst að framtíðin í atvinnumálum er björt þarna í heiðinni. Farþegafjöldi jókst um 18% á þessu ári og spá gerir ráð fyrir um 7% aukningu á næsta ári. Þessi aukning hefur jákvæða keðjuverkun og störfum ætti að fjölga samhliða hjá mörgum tugum aðila sem eru með starfsemi í og við flugstöðina. Ekki veitir af.
Næsta ljós fer til duglegra skólakrakka í bænum sem Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ verðlaunaði í vikunni. Yfir 120 nemendur sem eru á meðal þeirra 10% nemenda á landinu hlutu hæstu einkunnir á samræmdum prófum á haustönn 2011. Það hefur verið talað um lágt menntunarstig á Suðurnesjum og þegar við verðum vitni að svona góðri frammistöðu þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að okkar unga fólk eigi ekki eftir að mennta sig í framtíðinni. Frábært hjá krökkunum og þau og foreldrar þeirra geta verið stoltir.
Þriðja ljósbjarta umfjöllun okkar fer til Suðurnesjamanna sem hafa verið mjög duglegir að jólalýsa upp húsakynni sín í jólamánuðinum. Þarna eru við í fremstu röð á landinu og það er ánægjulegt þegar maður sér fjölda bíla og jafnvel heilu rúturnar rúnta um hverfin að skoða jólaljósin í bænum.
Eini skugginn í þessum pistli fer í Garðinn. Það er áhyggjuefni þegar upplausn verður í kringum skólastarf eins og sjá má í Sveitarfélaginu Garði. Áhyggjuefni sem við vonum að Garðmenn taki rétt á í mjög svo vandasömu máli.