Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Nokkrar staðreyndir um stöðu Sveitarfélagsins Voga
Fimmtudagur 7. desember 2006 kl. 16:14

Nokkrar staðreyndir um stöðu Sveitarfélagsins Voga

Í sveitarstjórnarkosningunum í vor vann E-listi, listi Strandar og Voga afgerandi sigur á H-lista sem hafði verið við völd í Vogum síðastliðin 16 ár. 
Nýr meirihluti kaus við upphaf kjörtímabilsins að fá greinagóðar upplýsingar um stöðu mála frá hlutlausum aðila til þess að gera sér betur grein fyrir verkefninu sem framundan er.  Endurskoðendaskrifstofan Grant Thornton var fengin til verksins og unnu þeir skýrslu sem nú hefur verið til umfjöllunar í bæjarstjórn.  Skemmst er frá því að segja að fulltrúar minnihlutans gerðu engar athugsemdir við skýrsluna, aðrar en þær að benda á að hluti framúrkeyrslu fyrstu 6 mánuði ársins séu tilkomnar vegna starfsmats sem samþykkt var fyrr á árinu.

Niðurstöðurnar virðast hins vegar hafa farið fyrir brjóstið á fyrrverandi oddvita og bæjarstjóra sveitarfélagsins og í grein sem þau rita í Víkurfréttir þann 23. nóvember síðastliðinn gera þau athugasemdir við að upplýsingar sem fram koma í skýrslunni séu dregnar fram.  Í greininni saka þau núverandi meirihluta um að sverta ímynd sveitarfélagsins með því að draga réttar upplýsingar fram í dagsljósið.  Það er einkennileg afstaða eins og fram kemur í áðurnefndri grein að halda því fram að allt sem vel sé gert sé valdhöfum að þakka en það sem miður fer sé vegna utanaðkomandi áhrifa.   Greinarhöfundar tala um að fyrrverandi meirihluti hafi vitað að reksturinn yrði í járnum en lítið bar á þeim upplýsingum í kosningabaráttunni og þó fyrrverandi valdhafar kjósi að bera saman bága stöðu sveitarfélagsins við sveitarfélög í svipaðri stöðu, þá bætir það ekki fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Voga.  
E-listinn markaði skýra stefnu í aðdraganda kosninga varðandi upplýsingagjöf til íbúanna og er þessi úttekt einn þáttur í þeirri upplýsingagjöf.  Þarna kristallast munurinn á stefnu E-listans og H-listans, a.m.k. fyrrverandi fulltrúa H- listans.  E-listinn vill vinna að lausnum í samstarfi við íbúana, og taka mið af skoðunum þeirra við ákvarðanatöku.

Skemmst er frá því að segja að niðurstaða skýrslunnar gefur til kynna mun erfiðari stöðu sveitarfélagsins en nokkurn grunaði. Greiðslubyrði af lánum og öðrum langtímaskuldbindingum, svo sem langtímaleigu, eru mun hærra en hægt var að gera sér grein fyrir út frá upplýsingum í ársreikningi sveitarfélagsins.  Meirihluti E-listans telur rétt að fylgja þeim reikningskilareglum sem gilda fyrir sveitarfélögin í landinu, í stað reikningsskilavenju eins og fyrrverandi meirihluti virðist telja rétt að gera.  Venjur geta verið rangar eða ófullnægjandi, en reglurnar eru skýrar og samkvæmt þeim skal færa skuldbindingu vegna langtímaleigusamninga með skýrum hætti inn í efnhagsreikninga sveitarfélaga, á sama hátt og gert er í skýrslunni sem unnin var fyrir sveitarfélagið.
Sú aðferð gefur upplýsingar um hve mikil skuldbinding felst í leigusamningunum og reiknað er hve há leigan verður á ári næstu árin.  Á þann hátt má  betur sjá hvernig staðan er og út frá þeim upplýsingum er svo hægt að byggja áætlanir og aðgerðir.  Nú vitum við t.d. að skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins eru tæplega 1,6 milljarðar og af þeim skuldum og skuldbindingum verðum við að borga.  Afborganir sveitarfélagsins af langtímalánum ásamt leigu verða að öllu óbreyttu á milli 120 og 130 milljónir á ári.
Hvernig svo sem fyrrverandi meirihluti með oddvita og bæjarstjóra í broddi fylkingar hefur kosið að líta á málið, er óumdeilt að borga þarf leigu af skólanum og íþróttamiðstöðinni, rétt eins og það er óumdeilt að það er ekki annar leigusali á þeim markaði í Vogum og því hæpið að skipt verði um leigusala.

Þeir sem leigja húsnæði af Búmönnum á 100 þús. kr. á mánuði þurfa að borga leigu svo lengi sem þeir kjósa að nota húsnæðið.  Hins vegar geta þeir skipt um leigusala eða keypt annað húsnæði í sveitarfélaginu ef þeir kjósa, svo við höldum okkur við samlíkingu sem fyrrverandi oddviti og bæjarstjóri nota í umræddri grein í Víkurfréttum.

Að mati núverandi meirihluta er sala eigna og endurleiga þeirra í raun sambærileg við endurfjármögnun lána.  Menn selja eign og skuldbinda sig til að leigja hana aftur í 30 ár. Vissulega er hægt að kaupa eignina aftur eftir 5 ára leigu, en þá þarf væntanlega að taka lán fyrir stærstum ef ekki öllum hluta kaupverðsins, miðað við stöðuna eins og hún er í dag. 
Það skal tekið fram að leigusamningarnir eru þó ekki aðalatriðið í niðurstöðu umræddrar skýrslu.

Aðalatriðið er að sveitarfélagið hefur verið rekið með rekstrarhalla mörg undanfarin ár og söluhagnaður af eignum  hefur að mestu farið í að fjármagna þann halla.  Sala eigna til að fjármagna rekstrarhalla leiðir einfaldlega til þess að innan skamms verður staðan verri en hún var áður en eignasalan fór fram.  Skuldir sveitarfélagsins hafa vissulega lækkað á tímabilinu frá 2003-2005 sem skýra má með sölu eigna.  Hins vegar hafa skuldir hækkað aftur og eru á miðju ári 2006 orðnar sambærilegar við skuldastöðuna eins og hún var árið 2003, auk þeirra skuldbindinga sem felast í leigusamningunum, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. 
 

Í grein sinni halda fyrrverandi oddviti og bæjarstjóri því fram að skýrsluhöfundar einblíni á skuldir og skuldbindingar en líti framhjá eignum.  Það er ekki allskostar rétt, því skýrsluhöfundar benda á að eignir sveitarfélagsins í hlutabréfum séu líklega vanmetnar í ársreikningi um allt að 200 milljónir.
Við frábiðjum okkur ásakanir um væl og framtaksleysi.  Síðustu mánuði hefur meirihluti E-listans unnið ötullega að því að leysa úr ýmsum vandræðamálum sem fyrrverandi meirihluti skyldi eftir sig, mál sem meðal annars hafa komið í veg fyrir að sveitarfélagið hafi getað úthlutað iðnaðarlóðum og innheimt af þeim gjöld, en það eitt og sér er efni í aðra grein.  Nú er E-listinn hinsvegar langt kominn með að leysa úr mörgum þeim málum og á næstu misserum mun íbúum verða kynnt þau verkefni sem unnið er að og hvaða þýðingu þau munu hafa fyrir sveitarfélagið.  E-listinn er ekki að fara á taugum enda mun hann ekki fjalla um erfiða fjárhagsstöðu sveitarfélagsins árið 2006 nokkrum kjörtímabilum síðar líkt og forveri hans gerði um stöðuna eftir valdaskiptin árið 1990 enda gæti slíkt flokkast undir væl.
Meirihluti E-listans lítur björtum augum á framtíð Sveitarfélagsins Voga og telur að áframhald verði á íbúafjölgun hér eins og annarsstaðar á suðvesturhorninu.  Til að bæta samkeppnishæfni okkar við nágrannanna er nauðsynlegt að bjóða upp á góða þjónustu og fjölskylduvænt umhverfi. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir og frítt í sund fyrir börnin okkar eru einn liðurinn í því, en foreldrar hafa lýst yfir mikilli ánægju með þá breytingu.
Við gerum okkur grein fyrir að næstu árin verða erfið, en stæðsta verkefni meirihlutans er að ná tökum á rekstrinum.  Það verkefni eins og önnur verður leyst í samstarfi við bæjarbúa með hag sveitarfélagsins að leiðarljósi.

Anný Helena Bjarnadóttir
Birgir Örn Ólafsson
Hörður Harðarson
Inga Rut Hlöðversdóttir,
fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar
Sveitarfélagsins Voga
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024