Aðsent

  • Nokkrar staðreyndir um rekstur tónlistarskóla
    Frá tónlistarkennslu í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
  • Nokkrar staðreyndir um rekstur tónlistarskóla
    Kjartan Már Kjartansson
Mánudagur 26. janúar 2015 kl. 11:15

Nokkrar staðreyndir um rekstur tónlistarskóla

– Sveitarfélög ekki góður vinnuveitandi?

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar (TR) er mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem gerir sveitarfélagið okkar að aðlaðandi valkosti fyrir fólk sem er að velja sér og fjölskyldum sínum framtíðar heimili. Við megum og eigum að vera stolt af skólanum okkar og þeim árangri sem kennarar hans og nemendur hafa náð á undanförnum áratugum. Um það geta vonandi allir verið sammála.

Síðast liðið haust stóð verkfall tónlistarskólakennara, sem eru í Kennarasambandi Íslands, í nokkrar vikur. Þegar samningar höfðu náðst var viðtal við skólastjóra tónlistarskólans í Víkurfréttum þar sem fram kom m.a. að kennarar teldu sveitarfélög á Íslandi ekki góðan vinnuveitanda. Íslenskum tónlistarskólum má skipta í tvo hópa eftir rekstrarfyrirkomulagi. Annars vegar eru það einkaskólar, sem njóta fjárhagslegs stuðnings sveitarfélaga, og hins vegar skólar sem sveitarfélögin starfrækja sjálf. Rekstrarfyrirkomulag TR er þannig.

Í síðasta tölublaði Víkurfrétta var haft eftir skólastjóranum að bæjayfirvöld í Reykjanesbæ hefðu ákveðið að hætta að greiða kennurum, sem búa á höfuðborgarsvæðinu en kenna í TR, andvirði fargjalda almenningssamgangna á milli höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar og að undirritaður hefði staðfest þá ákvörðun á fundi með kennurum sl. þriðjudag.  Allt er þetta rétt og styrkir líklega kennarana í þeirri trúa að sveitarfélagið sé ekki góður vinnuveitandi. Af þessu tilefni er rétt að taka fram nokkrar staðreyndir.

Eini hópurinn sem fær slíkar greiðslur

Tónlistarskólakennarar hafa um margra ára skeið verið eini hópurinn sem fengið hefur styrki á móti kostnaði við að koma sér til og frá vinnustað. Almenna reglan er sú að fólk eigi að koma sér til og frá vinnu í eigin tíma og á eigin kostnað. Nokkrir starfsmenn Reykjanesbæjar, aðrir en tónlistarskólakennarar, búa utan sveitarfélagsins. Sumir í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum og einhverjir á höfuðborgarsvæðinu. Enginn þessara starfsmanna hefur fengið greitt fyrir að koma sér til og frá vinnu. Mér er heldur ekki kunnugt um að tónlistarkennarar, sem þurfa stundum að ferðast langar leiðir innan höfuðborgarsvæðisins og jafnvel til nágrannasveitarfélaganna, fái greitt fyrir þær ferðir.

Lög um fjárhagslegan stuðning

Í gildi eru lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Í stuttu máli kveða þau á um að sveitarfélög skuli styrkja rekstur tónlistarskóla með fjárframlagi sem nemur launum kennara, þ.e.a.s. ef þau á annað borð ákveða að starfrækja tónlistarskóla, en rekstur þeirra er ekki lögboðið verkefni heldur val hvers sveitarfélags. Skólagjöldum er svo ætlað að standa undir öllum öðrum rekstrarkostnaði s.s. launum annarra starfsmanna en kennara (húsverði, skrifstofufólks, ræstingafólks o.s.frv.), rekstri húsnæðis, hljóðfærakaupum, ferðakostnaði á milli kennslustaða o.s.frv. Þannig njóta t.d. allir tónlistarskólar í Reykjavík, sem flestir eru sjálfseignastofnanir eða í einkaeigu, eingöngu styrkja frá borginni sem nema launum kennara. Skólagjöld standa svo undir öllum öðrum kostnaði.

Reykjanesbær gerir miklu betur

Reykjanesbær hefur alla tíð gert mun betur við sína tónlistarskóla; fyrst Tónlistarskóla Njarðvíkur og Tónlistarskólann í Keflavík, og nú við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Það þekki ég af eigi reynslu sem skólastjóri Tónlistarskólans í Keflavík í 13 ár frá 1985-1998. Með tilkomu nýs húsnæðis Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í Hljómahöll, sem vígt var 2014, hækkaði húsnæðiskostnaður skólans tífalt, úr tæpum 5 milljónum í 50 milljónir á ári auk þess sem Reykjanesbær keypti ný hljóðfæri fyrir um 84 milljónir króna í nýja húsnæðið. Um leið varð til einn glæsilegasti og best útbúni tónlistarskóli á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Framlag Reykjanesbæjar til rekstrarins, umfram það sem gert er ráð fyrir í lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, jókst sem þessu nam og á árinu 2015 er gert ráð fyrir að það verði um 50 milljónum meira en sem nemur launum. Það yrðu nú margir rekstraraðilar og kennarar tónlistarskóla í Reykjavík ánægðir með slíkan umfram stuðning.

Launin eru ekki allt

Í nær öllum vinnustaðarannsóknum, sem ég hef lesið og kynnt mér, eru laun ekki í fyrsta sæti þegar fólk er spurt um hvað það er sem skiptir mestu máli í vinnunni. Þættir eins og starfsandi og starfsaðstaða á vinnustað, að hafa verkefni við hæfi, að fá tækifæri til að nýta þekkingu sína, reynslu og hæfni til fulls o.s.frv. raðast yfirleitt ofar á listann en laun. Miðað við það hefði mátt ætla að kennarar tónlistarskólans væru almennt mjög ánægðir með nýja skólann og þá aðstöðu og hljóðfærakost sem þeim þar er sem hefði svo aftur afgerandi áhrif á starfsánægju þeirra. Það virðist því miður ekki vera reyndin.

Annað rekstarform mögulegt?

Á þessum sama fundi og vísað er til hér að framan nefndi ég líka að ef kennarar hefðu hugmyndir um hvernig mætti standa betur eða réttar að rekstri skólans væri ég fús til að ræða þær. Til dæmis ef kennarar vildu stofna félag sem tæki að sér reksturinn með fjárhagslegum stuðningi frá Reykjanesbæ eins og skólarnir í Reykjavík fá frá borginni. Þeirri spurningu var ekki svarað en kannski vaknar áhugi þeirra á einhvers konar slíkri útfærslu og þá er um að gera að skoða hana  með jákvæðum huga.

Erum að gera vel

Að lokum vil ég ítreka það sem hér hefur komið fram að það er mitt mat að Reykjanesbær hafi um árabil staðið mjög vel að rekstri tónlistarskólans. TR er á meðal bestu tónlistarskóla landsins og við getum verið stolt af þeim árangri sem nemendur hans og kennarar hafa náð á mörgum sviðum. Ég er alls ekki sammála fyrrverandi kollegum mínum sem eru þeirrar skoðunar að sveitarfélög séu vondur vinnuveitandi. Þvert á móti. Um þessar mundir eru allar stofnanir Reykjanebæjar að hagræða í sínum rekstri til þess að mæta kröfu bæjaryfirvalda um lægri rekstrarkostnað. Tónlistarskólinn verður að taka á þessu með okkur. Þá er eðlilegast að allir kostnaðarliðir séu skoðaðir þ.m.t. niðurgreiðsla ferðakostnaðar til og frá heimilum kennara. Um leið munu allir starfsmenn Reykjanesbæjar, sama hvar þeir búa, sitja við sama borð og jafnræðis gætt.

Kær kveðja
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024