Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Nóg að gera í Reykjanesbæ?
  • Nóg að gera í Reykjanesbæ?
Laugardagur 10. maí 2014 kl. 17:22

Nóg að gera í Reykjanesbæ?

– Baldvin Gunnarsson skrifar

Flugstöð Leifs Eiríkssonar er alþjóðleg flugstöð og staðsett hér hjá  okkur í nágrenni Reykjanesbæjar. Hún er mikilvæg samgönguæð fyrir alla landsmenn og mjög mikilvæg fyrir atvinnulífið hér hjá okkur. Hún skapar ekki bara störf heldur fylgja henni fjölmörg afleidd störf sem og möguleikar varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu á Suðurnesjum. En við þurfum að nýta þá möguleika sem staðsetning hennar gefur okkur betur en nú er.
 
Rétt skal vera rétt
Gallinn er hins vegar sá að flugvöllurinn er eyrnamerktur REYKJAVÍK. Á flugmiðanum þurfum við að breyta áfangastað (destination) í Keflavík International Airport. Þá eru ferðamenn sem eru að koma hingað til landsins á réttri leið inn í landið. Ekki á leið til Reykjavíkur heldur að lenda á Keflavík International Airport. Mér finnst ekki rétt að afvegaleiða ferðamenn eins og gert er með þessum hætti.
 
Reykjanes er spennandi áfangastaður
Breytingin á nafni áfangastaðar myndi hafa mikla þýðingu fyrir samfélagið okkar og möguleika varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu. Þegar við pöntum okkur ferð til útlanda þá skoðum við t.d. á netinu áður en við förum hvað hægt er að hafa fyrir stafni á áfangastað. Ef áfangastaður flugvallar væri Keflavík, ekki Reykjavík, þá myndi fólk fletta upp á netinu hvað hægt væri að gera á því svæði. En eins og við vitum þá er margt að skoða hér á Reykjanesinu, t.d. Brúna milli heimsálfa, Gunnuhver, Codland, Víkingaheima, Bláa lónið auk fjölmargra annarra áfangastaða og gönguleiða.
 
Tengja ferðaþjónustuna við fiskiðnaðinn
Möguleikar til áframhaldandi uppbyggingar ferðaþjónustu á Reykjanesi eru óþrjótandi. Ég sé t.d. fyrir mér hótel og gistisvæði við höfnina við Fitjar í Njarðvík og alls konar atvinnutengdan ferðamannaiðnað á svæðinu frá Fitjum að Víkingaheimum. Ég hef heyrt nefnt að framkvæmdafólk hafi sýnt því áhuga að kaupa Slippinn í Njarðvík, þ.e. aðalbygginguna við Sjávargötuna. Þar dreymir fólk um að reka gististað og ég sé fyrir mér möguleika á veitingastað og afþreyingu tengda grunnatvinnuvegi okkar, fiskiðnaði.
 
Rekstur Víkingaheima til einkaaðila
Hugmyndin um fiskiþorpið sem grundvöllur að sögu- og menningartengdri ferðaþjónustu er mjög áhugverð og vel gerleg. Þetta er allt spurning um vilja og framsýni. Ég tel mikilvægt að Víkingaheimar  verði seldir eða settir í leigu til einkaaðila. Svæðið í kring er hægt að nýta mun betur sem og safnið og það sem það hefur upp á að bjóða. Þar er t.d. hægt að vera með ýmsa afþreyingu, t.d. kæjakróður, köfun, sjóþotuleigu, fjölskyldugarð og vera með menningartengdar lifandi sýningar, s.s. víkingabardaga og slíkt.
Við þurfum að hugsa fram í tímann, horfa á tækifærin sem svæðið býður og vinna okkar vinnu. Það gerir það enginn fyrir okkur.
 
Baldvin Gunnarsson,
framkvæmdastjóri og skipar 7. sæti á lista Framsóknar í Reykjanesbæ 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024