Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Þriðjudagur 20. mars 2001 kl. 09:42

Njarðvíkurhöfn er ruslakista

Nýlega fór fram undirskriftasöfnun á vegum íbúa í Njarðvík. Rúmlega 100 íbúar mótmæla þar starfsleyfi Jökuls Ólafssonar til að setja loðnu í stóra tanka sem standa á hafnarbakkanum, en af þessum tönkum stafar mikil loft- og sjónmengun og eru íbúarnir búnir að fá yfir sig nóg af umgengninni við höfnina sem er að verða eins og ruslahaugur. Umræddir tankar voru fluttir 1998 til Njarðvíkur frá Skerjafirði og fór engin grenndarkynning fram.

Mynd: Tanakarnir sem eru fáa metra frá næastu íbúðahúsum.Arndís Tómasdóttir er ein þeirra sem býr næst höfninni og er hún í forsvari fyrir undirskriftasöfnuninni.
„Í Reykjanesbæ eru 4 hafnir að meðtalinni smábátahöfninni. Það gefur augaleið að viðhald og rekstur þessara hafna hlýtur að vera dýr. Höfnin í Njarðvík hefur lengi gegnt því hlutverki meðal annars að geyma gömul bátshræ, ónýtan pramma, ryðgaða tanka til meltuframleiðslu og annað rusl. Öll umgengni við höfnin er í samræmi við það, svo ekki sé minnst á slysahættuna sem þar er en börn og unglingar sækja mikið í að leika sér í bátshræjunum og á prammanum“, segir Arndís.
Loðnubræðslan Barði leigði tankana fyrir loðnu vertíðina 2000. Þegar sú loðna var selflutt til vinnslu í Sandgerði, þá angaði bærinn af ólykt og óþverrinn lak hér um allar götur íbúum til mikillar armæðu. Vargfuglinn komst þarna í æti og var hamagagurinn svo mikill að ekki var svefnvært í næstu húsum við höfnina.
„Í ljósi þessarar reynslu, sóðaskapar og umgengni við höfnina, þá krefjumst við þess að meltutankar þessir verði fjarlægðir og umgengni bætt svo við megum sitja við sama borð og aðrir bæjarbúar þar, sem snyrtimennskan er höfð í fyrirúmi. Við beinum mótmælum okkar m.a. til stjórnar hafnarinnar, heilbrigðiseftirlits bæjarins, Umhverfisráðuneytis og ekki síst til stjórnenda bæjarins,sem eru okkar umbjóðendur í stjórnsýslunni. Við væntum skjótra viðbragða og krefjumst að fá að vita hver er framtíð hafnarinnar og hvað stjórnvöld hafa hugsað sér í skipulagsmálum. Við teljum okkur hafa nokkurn rétt til að hafa áhrif á okkar næsta nágrenni“, segir Arndís en það verður gaman að sjá hvort yfirvöld fari að óskum íbúa og taki til hendinni við höfnina á næstu vikum því þolinmæði þeirra er á þrotum.

Mynd. Skipshræ sem hafa legið við höfnina í nokkur ár. Þar eru börn oft að leik.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024