Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 25. mars 2002 kl. 11:23

Nickel-svæðið: Stærsta skipulagsmál Reykjanesbæjar

Að undanförnu hefur mátt sjá kraftmiklar vinnuvélar og vörubíla fara mikinn á Nickel-svæðinu. Mannvirki hafa horfið og jarðvegi verið ekið burtu. Þetta er sannarlega mikið ánægjuefni. Segja má að hér sé að verða að veruleika langþráð ósk um að Varnarliðið skilaði Nickel-svæðinu enda þörf þess fyrir notkun svæðisins ekki lengur fyrir hendi eftir að Helguvíkurhöfn var byggð. Nú stefnir loks í að unnt verði að nýta Nickel-svæðið í þágu sveitarfélagsins. Segja má að þar með sé rennt stoðum undir stærsta skipulagsmál sveitarfélagsins um langa hríð.Aðdragandi landskila Varnarliðsins er langur og flókinn. Gæta þarf margra atriða, ekki síst umhverfisþáttanna því hvorki vill Varnarliðið fá á sig skaðabótakröfu né heldur notendur landsins sitja uppi með vandamál síðar meir. Þessum málum hefur verið sinnt af kostgæfni og unnið í fullu samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja. ÍAV og verktakar á þeirra vegum sinna svo verkþáttunum. Vegur þar þyngst flutningur og urðun á menguðum jarðvegi. Verki þessu lýkur á næstu vikum. Þá munu íbúar bæjarins sjá hinar hvimleiðu girðingar hverfa og grundvöllur að þéttingu byggðar milli Njarðvíkur og Keflavíkur verða að veruleika. Segja má að þar með hefjist í raun lokaspretturinn að sameiningu sveitafélaganna.
Nickel-svæðið er óneitanlega mikil lýti á bæjarfélaginu – ekki síst fyrir þá íbúa er næst búa. Með afhendingu þess geta bæjaryfirvöld nú hafið vinnu eftir nýju skipulagi er fegrar í alla staði bæjarfélagið og stuðlar að enn frekari uppbyggingu þess. Loksins stefnir í að þessi hluti Reykjanesbæjar verði ein heild – íbúum öllum til mikilla hagsbóta.

Hjálmar Árnason,
alþingismaður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024