Nenni ekki Fésbókarvæli!
Eitthvað virðast lokaorð mín í Víkurfréttum í vikunni hafa snert háttvirtan þingmann Oddnýju Harðardóttur illa. Bara að minnast á Klausturbarinn þykir skammarlegt. Við skulum alveg hafa það á hreinu að Klausturbarinn sjálfur er ljómandi góður þó umræða ónefndra þingmanna á staðnum í nóvember síðastliðnum hafi ekki verið þeim sæmandi.
Eins og venja er í dag þá þykir best að svara fyrir sig á Fésbókinni. Ég nenni illa svoleiðis. En ég er þakklátur Oddunýju fyrir að láta í sér heyra, svara fullum hálsi og bjóða til fundar við Samfylkinguna.
Ég hef hrifist af málflutningi bæjarstjóra Reykjanesbæjar, Kjartans Más Kjartanssonar þar sem ítrekað hefur verið bent á að Suðurnesjamenn sitja aftast á merinni í fjárveitingum ríkisvaldsins. Það er ólíðandi.
Um leið og ég þakka Oddnýju fyrir heimboð Samfylkingarinnar þá vil ég gjarnan að íbúar á Suðurnesjum fái að njóta umræðunnar og legg til að Oddný og aðrir þingmenn Suðurkjördæmis mæti til opins borgarafundar í Reykjanesbæ. Þar geti sveitarstjórnarmenn og almenningur fengið að spyrja þingmenn spjörunum úr. Það er tími til kominn að þingmenn okkar svæðis fari að vinna saman að hag Suðurnejsa, óháð flokkadráttum. Ég geri ráð fyrir að Ásmundur, Birgir, Silja, Vilhjálmur og aðrir þingmenn svæðisins mæti ásamt Oddnýju vinnuveitendum sínum sem oft eru kallaðir kjósendur, augliti til auglitis og geri grein fyrir sínum málum.
Það er óásættanlegt að Suðurnesin séu í einhverjum ruslflokki í landsmálapólitíkinni. Þvi ætlum við að breyta, ekki seinna en strax!
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar skipuleggi fundartíma og staðsetningu.
Áfram Suðurnes.
Margeir Vilhjálmsson