Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Nemendalýðræði í Stóru-Vogaskóla
Mánudagur 7. mars 2016 kl. 06:00

Nemendalýðræði í Stóru-Vogaskóla

Síðastliðið skólaár þegar við skoðuðum niðurstöður Skólapúlsins frá 2013 til 2014 tókum við þá ákvörðun að við þyrftum að gera eitthvað til að auka trú nemenda á eigin námsgetu og auka sjálfsálit þeirra. Í þeim könnunum eru nemendur úr 6. til 10. bekk spurðir ýmissa spurninga sem varða nám þeirra, líðan og skóla- og bekkjaranda.

Í samvinnu við skólaráð og stjórn nemendafélagsins sóttum við um styrk í Sprotasjóð, fengum eina milljón og byrjuðum í haust með svokallað Vinaliðaverkefni. Það miðar að því að allir nemendur geti fundið einhvern leik við sitt hæfi í frímínútum og enginn sé skilinn útundan. Við höfum trú á því að ef nemendum líður betur gangi þeim betur í námi. Á dagskrá vetrarins er líka sjálfstyrkingarnámskeið fyrir alla nemendur í 6. til 10. bekk. Við höldum síðan áfram að leggja okkur fram við kennslu og utanumhald um nemendur. Börnin hafa síðan sjálf komist að þeirri niðurstöðu að þau þurfi að vera duglegri að hrósa hvert öðru þegar þau standa sig vel hvort sem er í námi eða leik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Föstudaginn 22. janúar síðastliðinn var haldið skólaþing með nemendum í 6. til 10.bekk í Stóru-Vogaskóla. Umræðuefni þingsins voru niðurstöður úr nemendakönnunum Skólapúlsins síðustu ár, hvar hefði gengið vel og hvaða atriði þyrfti að bæta.

Stjórn nemendafélagsins hefur verið að rýna í niðurstöðurnar frá því í lok nóvember, ásamt kennara og skólastjóra, og kynntu þau þær síðan  fyrir nemendum í 6. til 10. bekk. Að því loknu var nemendum skipt í hópa og þau ræddu niðurstöðurnar og komu með ýmsar hugmyndir til úrbóta. Til þessarar vinnu höfðu þau 80 mínútur og í miðju kafi gerðum við stutt hlé og allir fengu kakó og kex.

Í stuttu máli sagt stóðu nemendur sig alveg frábærlega vel, bæði þeir sem kynntu, hópstjórar og þátttakendur allir. Allir voru jákvæðir, frjóir og áhugasamir.

Næstu skref eru þau að stjórnin fer yfir niðurstöður skólaþingsins, gerir þær sýnilegar og býr til áætlun um úrbætur. Nú eru nemendur að vinna plaköt með niðurstöðunum sem munu prýða ganga skólans.

Skólaþingið sem haldið var er afrakstur hugleiðinga stjórnar nemendafélagsins og nokkurra kennara skólans. Þau eru endalaust að taka þátt í könnunum og hafa niðurstöður verið notaðar í innra mati skólans að einhverju leyti. Nú fengu þau að vera með þegar við rýndum í niðurstöðurnar eins og áður hefur verið lýst og er sú vinna sem liggur þar að baki bæði búin að vera gagnleg og skemmtileg. Það er líka gaman að segja frá því að að þegar þessi vinna hófst hjá stjórn nemendafélagsins á síðasta skólaári, spurði nemandi í 10. bekk þegar PISA könnun var lögð fyrir hópinn ,,hvenær fáum við svo að sjá niðurstöður úr þessari könnun?“

Í lok september tóku  nemendur í 4., 7. og 10. bekk samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði og í 10. bekk tóku þau líka próf í ensku. Tilgangur samræmdra  könnunarprófa er að:

• athuga eftir því sem kostur er, að hvaða marki námsmarkmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð,

• vera leiðbeinandi um áherslur í kennslu fyrir einstaka nemendur,

• veita nemendum, foreldrum og skólum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda,

• veita upplýsingar um hvernig skólar standa í þeim námsgreinum sem prófað er úr, miðað við aðra skóla landsins.

Niðurstöður í 4. bekk voru þær að þau voru  langt yfir landsmeðaltali í stærðfræði en undir í íslensku, í 7. bekk voru þau undir landsmeðaltali og í 10. bekk voru þau undir landsmeðaltali í stærðfræði og íslensku en um meðaltalið í ensku. Í 7. og 10. bekk er líka reiknaður framfarastuðull sem segir okkur hvort nemendur standa sig jafn vel, betur eða verr en í síðasta könnunarprófi og var ánægjulegt að sjá að þó nemendur í 10. bekk í íslensku séu undir landsmeðaltali hafa þau bætt sig talsvert frá 7. bekk og það er það sem skiptir máli.

Strax og niðurstöður birtust fóru kennarar að vinna með nemendur í samræmi við þær, til dæmis með aukinni lestraraðstoð og námsaðstoð þar sem við á.

Þegar niðurstöður eru skoðaðar þurfum við alltaf að hafa í huga mismunandi samsetningu á námshópum. Í fámennum árgöngum þarf ekki mikið til svo niðurstaða verði óvenjulág eða óvenjuhá og geta ýmsar ástæður legið þar að baki. Það er síðan okkar að rýna í þær til gagns og nú skoðum við til dæmis sérstaklega litla trú okkar nemenda á eigin námsgetu samkvæmt könnun Skólapúlsins, eins og áður sagði, í samhengi við niðurstöður á samræmdum prófum. Þar sjáum við til dæmis að þó að nemendur standi sig vel á samræmdum könnunarprófum hafa þau litla trú á eigin námsgetu. Hvernig stendur á því?

Nemendur okkar er hópur af frábærum krökkum sem við erum ánægð með, stolt yfir að hafa hér og okkur líður vel með. Það er eftir því tekið að þau sýna öðrum vináttu og virðingu. Við þurfum í sameiningu að vekja hjá þeim metnað, taka eftir því sem vel er gert og hrósa, nemendur þurfa líka að hrósa hvert öðru fyrir góða frammistöðu eða framgöngu. Það mun auka trú þeirra á eigin námsgetu og þeim mun líða betur.

Svava Bogadóttir
skólastjóri