Nema Ólafur og Guðbrandur...
Tveir forkólfar A-listans í Reykjanesbæ samfylkingarmennirnir Guðbrandur Einarsson og Ólafur Thordersen, hafa lítið haft fram að færa í bæjarstjórn undanfarin ár. Þeirra helsta hlutverk hefur einkennst af því að vera á móti uppbyggingu, en þegja síðan þunnu hljóði þegar í ljós kemur að uppbyggingin er að skila sér gríðarlega vel.
Þeir eru báðir óánægðir með flest sem gert er en ekkert mjög samstíga og gátu t.d. ekki komið sér saman um að svara mér í stuttri grein sem ég skrifaði í Víkurfréttir fyrir hálfum mánuði síðan.
Það sem þeir geta sameinast um er að þar sem þeir hafa ekkert málefnalegt fram að færa, sé ákjósanlegast fyrir þá að skíta bæjarstjórann okkar út – þannig telja þeir líklegast að styrkur sjálfstæðismanna minnki- og þá eru öll meðöl notuð- tilgangurinn hjá þeim helgar jú meðalið.
Aldrei verið í stjórn HS
Það er gefið í skyn að ég sé áhrifamaður í stjórn Hitaveitu Suðurnesja. Hið rétta er að ég hef aldrei verið þar í stjórn. Hins vegar keypti fyrirtæki sem ég er 17% eigandi í hlut HS í Sparisjóðnum, á hæsta verði sem hafði verið selt á og það var gert með samþykki allra stjórnarmanna í HS, þar á meðal þriggja Samfylkingarmanna. Að gefa í skyn að þessir Samfylkingarmenn séu þá í einhverju dularfullu samkurli með mér er ekkert annað en grátbroslegt!
Allir sammála um öfluga uppbyggingu nema..
Allir eru nú sammála um að það var heillaspor að sameina sveitarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir, nema auðvitað Ólafur Thordersen. Hann var líka á móti því að gera Hitaveituna að hlutafélagi, sem nú hefur skilað sveitarfélögunum á Suðurnesjum gríðarlegum fjármunum til hagsbóta fyrir íbúana, allt undir forystu Reykjanesbæjar.
Allir vita að það var Reykjanesbær sem varði Hitaveituna í söluferlinu að undanförnu og ákvað að halda fast í ráðandi hlut sinn í HS, þegar öll hin sveitarfélgöin vildu selja. Allir á Suðurnesjum skilja þetta og eru ánægðir með þá ákvörðun okkar sjálfstæðismanna..... nema þá helst Ólafur og Guðbrandur!
Ólafur og Guðbrandur hafa nú ákveðið að vera á móti stórfyrirtæki sem hingað hefur flutt og heitir Geysir Green Energy. Þær fáeinu vikur sem Reykjanesbær hefur verið eigandi í Geysi, og fékk þar með fyrirtækið til að hafa höfuðstöðvar sínar hér, hefur virði bæjarins í félaginu aukist um 30%, hækkað um 50 milljónir kr. Geysir var nú nýverið að kaupa Jarðboranir, sem er eitt öflugasta jarðboranafyrirtæki í heimi,. Kaupin á fyritækinu gætu nú þýtt að djúpborunarverkefni á vegum HS verði flýtt. Þetta eru frábærar fréttir fyrir okkur Suðurnesjamennm...... nema auðvitað fyrir þá Ólaf og Guðbrand!
Þeir finna að því að búið sé að fjárfesta fyrir milljarða kr. í Helguvíkurhöfn. Nú sjá flestir að með tilkomu álvers og fleiri fyrirtækja sem nú vilja ólm koma í Helguvík, er fjárfestingin að skila sér margfalt til baka. Þessu fagna auðvitað allir Suðurnesjamenn..... nema þeir Ólafur og Guðbrandur!
Uppbygging á Vallarsvæðinu undir forystu bæjarstjórans hefur gengið ótrúlega vel. Góðir stjórnendur hafa verið valdir til verka þar, og ekki er hægt að saka bæjarstjórann um að spyrja um flokksskírteini í því vali. Allir eru himinlifandi yfir uppgangi þar: háskólafélaginu Keili, mögulegu netþjónabúi og kvikmyndaveri, allt nýjum og ferskum hugmyndum. Allir eru himinlifandi yfir þessu..... nema þá helst þeir Ólafur og Guðbrandur!
Ég vona að allir Suðurnesjamenn eigi gleðilega Ljósanótt framundan og þar með eru taldir þeir Ólafur og Guðbrandur!
Þorsteinn Erlingsson,
Skipstjóri og formaður Atvinnu- og hafnaráðs.