Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Neikvæðni oft reist á vanþekkingu
Þriðjudagur 1. maí 2007 kl. 18:21

Neikvæðni oft reist á vanþekkingu

Neikvæð umræða er oft á tíðum reist á vanþekkingu að mínu mati. Nýlega las ég grein þar sem fjallað var um álver í Helguvík á frekar neikvæðan hátt. Þar var gagnrýnt að almenningur sé ekki með í ráðum.

Íbúalýðræði
Það má í raun segja að hvergi á Íslandi fái íbúar að vera eins mikið með í ráðum og einmitt í Reykjanesbæ. Verkefni bæjarfélagsins eru tekin fyrir á íbúafundum á hverju ári þar sem hver og einn getur hvatt sér hljóðs og komið skoðunum sínum á framfæri, sama hver málaflokkurinn er. Einnig hafa verið haldin málþing um skólamál þar sem nemendur, foreldrar og aðrir geta lagt sitt að mörkum varðandi menntastefnu bæjarfélagsins.

Fulltrúalýðræði

Ég spyr, erum við (almenningur) í rauninni hæf til að taka afstöðu í stórum og flóknum málum? Tökum fjölmiðlafrumvarpið sem dæmi. Mikil andstaða var um málið á sínum tíma sem varð til þess að forseti Íslands beitti neitunarvaldi embættisins í fyrsta skipti. Gegn löggjafavaldinu sem almenningur hafði kosið sér. Hvernig standa málin í dag? Fjölmiðlarnir eru flestir á sömu hendi. Nýverið keyptu þessir einstaklingar sem standa að fjölmiðlarisanum útvarpsstöðvar og lokuðu þeim til að almenningur myndi nú bara hlusta á útvarpsstöðvarnar þeirra. Það er löngu sannað að fjölmiðlafrumvarpið átti rétt á sér, en múgæsingurinn í kringum það hefði verið þess valdandi að almenningur hefði fellt það í kosningu. Því miður grípur almenningur yfirleitt neikvæðu raddirnar á lofti og styður þær án þess að setjast niður og kynna sér málið til hlítar. Við kjósum okkur fulltrúa til að fara með völdin fjögur ár í senn og hafa þessir fulltrúar fræðinga sér til aðstoðar til að taka skynsömustu ákvarðanirnar.


Sátt meðal íbúa
Árni Sigfússon bæjarstjóri lagði  álvershugmyndirnar fram á íbúafundum í öllum hverfum Reykjanesbæjar og gerði álverið að baráttumáli Sjálfstæðisflokksins  í bæjarstjórnarkosningunum sl.vor. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 57% atkvæða og því brautargengi í málinu.Auk þess hafa verið gerðar tvær skoðanakannanir í bæjarfélaginu þar sem fram kemur 76% stuðningur við álver. Þessar niðurstöður sýna vilja reyknesbæinga í málinu og því unnið út frá því.


Umhverfisvæn orkunýting
Mengunarþættir álvera hafa að sjálfsögðu verið í umræðunni og þegar sá þáttur er skoðaður menga álver minna en bílafloti íslensku þjóðarinnar. Umhverfisvæn orka á Íslandi leiðir af sér litla mengun.  Ef öll áform um álver á Íslandi verða að veruleika verður ársframleiðsla áls um 1,6 milljón tonna og losun koltvísýring c.a. 2,5 milljónir tonna. Eitt álver í Ástralíu sem knúið er áfram með kolum og framleiðir 250 þúsund tonn losar 3,7 milljónir tonna af koltvísýringi á ári.


Sjónrænir þættir
Hvað varðar sjónmengun, þá er hönnun álversins í Helguvík unnið í sátt við umhverfið. Uppgröfturinn mun verða nýttur í manir með gróðri í umhverfi álversins. Með þessu mun aðeins sjást í útblástursrör álversins. Einnig verður það málað með þeim hætti að það falli vel inn í umhverfið. Sjónrænu áhrifin eru því mjög takmörkuð.


Fjöllbreytt atvinnulíf
Hvað varðar atvinnulífið þá er veruleg þörf álveri í Helguvík. Hvernig ætlum við að mæta því áfalli sem við urðum fyrir þegar Varnarliðið fór? Ríflega 700 manns misstu þar lífviðurværið. Við getum ekki bara stólað á að allir fái vinnu á Flugstöðvarsvæðinu. Atvinnulífið á Suðurnesjum þarf að vera fjölbreytt og ekki má leggja allt sitt á einn póst hvað þetta varðar. Uppbyggingin á Suðurnesjum er hröð og fólksfjölgun með besta móti. Við verðum að hafa fjölþætta atvinnumöguleika á svæðinu til að laða að nýja íbúa.


Árni Árnason
kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins á Suðurnesjum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024