Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Náttúruvernd á Reykjanesskaga
Föstudagur 13. október 2006 kl. 08:48

Náttúruvernd á Reykjanesskaga

Ferðamálasamtök Suðurnesja undirrituðu 10. okt. s.l.  samning við Hitaveitu Suðurnesja hf. um verndun náttúru og fornra þjóðleiða á Reykjanesi. Samningurinn er um margt fordæmalaust þar sem orkufyrirtæki og ferðaþjónustan sameinast í umhverfismálum.

Íslensk náttúra er aðdráttaraflið
Hitaveita Suðurnesja hf. er virkjunaraðili á Reykjanesskaganum og því gerandi í öllum þeim verkefnum sem snúa að því að virkja háhitasvæðin sem liggja eftir endilöngum skaganum. Ferðamálasamtök Suðurnesja eru regnhlýfarsamtök fyrir ferðaþjónustuna á sama svæði. Eins og flestir vita þá er íslensk náttúra helsta aðdráttarafl ferðamanna til landsins og skiptir því ferðaþjónustuna miklu máli hvernig um hana er gengið. Reykjanesskaginn hefur upp á margt að bjóða til náttúruskoðunar og óvíða þar sem landslag er eins opið og viðkvæmt fyrir raski og framkvæmdum. Það er því mikið í húfi fyrir ferðaþjónustuna að vel til takist við uppbyggingu orkuvera á Reykjanesinu.

Svartsengi og Bláa Lónið
Það er vissulega ánægjulegt að Hitaveita Suðurnesja skuli sýna ferðamálunum þann skilning að gera slíkt samkomulag þó það hljóti auðvitað að vera hagur HS einnig að sýna í verki að umhverfið skiptir þá miklu máli. Hitaveitan hefur gott orð á sér fyrir lausnir í umhverfismálum tengdum virkjanamálum og ber þar hæst Svartsengi þaðan sem Bláa Lónið fær sitt bláa lón. Samningur Hitaveitunnar við eigendur Bláa Lónsins hefur leitt af sér eitt eftirtektarverðasta fyrirtæki í heiminum við nýtingu þeirra möguleika sem orkuver af þessu tagi bjóða upp á. Hvernig Bláa Lónið er svo byggt og látið falla inn í landslagið við Illahraun er aðdáunarvert. Heilsuhótelið við Bláa Lónið er annað dæmi um hvernig ganga á frá byggingum úti í náttúrunni. Það er engu líkara en sú bygging hafi komið upp úr jörðinni. Hvernig Bláa Lónið gengur frá sínum mannvirkjum í sátt við náttúruna er tær snilld.

Mannvirki falli inn í umhverfið 
Við hjá Ferðamálasamtökum Suðurnesja  trúum því að Reykjanesvirkjun sem er í byggingu og þær sem síðar kunna að koma á vegum Hitaveitu Suðurnesja hf. á Reykjanesskaganum verði með sama hugsanahætti og í Svartsengi. Við hjá Ferðamálasamtökum Suðurnesja viljum þó árétta þá skoðun okkar að þegar leggja þarf rör og byggja mannvirki utan þéttbýlis vegna þessara orkuframkvæmda verður að láta mannvirkin falla inni í umhverfið. Það á ekki að vera erfitt að uppfylla þessa kröfu og laga þar sem þarf í dag. Erfiðara mál er lagning rafmagnsloftlína með tilheyrandi stauravirkjum þvers og kruss um Reykjanessið, það þarf að leysa með öðrum hætti.

Kristján Pálsson

formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024