Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Myllubakkaskóli: Ástandið í skólanum var orðið ólíðandi
Miðvikudagur 18. janúar 2012 kl. 16:28

Myllubakkaskóli: Ástandið í skólanum var orðið ólíðandi

Undirrituð telja nauðsynlegt að svara grein sem birtist í Víkurfréttum þann 16. janúar sl. undir fyrirsögninni ,,Fyrrum skólastjóri vandar Reykjanesbæ ekki kveðjurnar”.

Okkur finnst mikilvægt að koma því á framfæri að þetta mál snýst alls ekki um meinta valdníðslu eða hroka af hálfu fræðslustjóra gagnvart fyrrum skólastjóra Myllubakkaskóla. Ástandið í skólanum var orðið ólíðandi. Skólastjórinn réði ekki við starfið og með hagsmuni skólans í huga sagði fræðslustjóri henni upp, enda mikið í húfi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Okkur finnst einnig mikilvægt að leiðrétta rangfærslur sem fram komu í fréttinni.

Í greininni á vef Víkurfrétta segist fyrrum skólastjóri hafa ráðist í breytingar sem hafi farið fyrir brjóstið á starfsmönnum skólans og hún hafi orðið fyrir einelti í kjölfarið á því. Þetta teljum við vera alrangt. Starfsfólk Myllubakkaskóla einsetti sér að taka vel á móti nýjum skólastjóra haustið 2010 og var, sem og endranær, jákvætt fyrir breytingum. Hins vegar kaus fyrrum skólastjóri ekki að nýta sér þann mannauð sem hún hafði, vanmat starfsmannahópinn og brást að lokum trausti hans.

Strax í byrjun árs 2011, rétt hálfu ári eftir að hún hóf störf, fór stjórnunarvandi skólastjóra að koma skýrar fram. Það kom fram með ýmsum hætti í samskiptaleysi, handahófskenndum ákvörðunum og skorti á samráði við næstu stjórnendur og starfsmenn. Þrátt fyrir góðan vilja allra starfsmanna skólans til að færa þau mál til betri vegar urðu engar breytingar í stjórnunarframkomu skólastjórans þótt nánast allt árið 2011 liði. Engu virtist breyta þótt fræðslustjóri hafði rætt við hana og gerði tilraunir til að leiðbeina stjórnunarháttum í betri farveg. Var svo komið í nóvember í fyrra að fjölda starfsmanna þótti ástandið með öllu óviðunandi og margir foreldrar fundu einnig vel fyrir þessari óviðunandi stöðu.

Þegar skólastjóra er sagt upp, þrátt fyrir stuttan starfstíma, ætti öllum að vera ljóst að margt hefur farið úrskeiðis. Það á við í þessu máli og verður ekki tíundað hér enda viðkvæmt mál sem snertir marga í löngu og leiðinlegu ferli.

Við teljum framgöngu fræðslustjóra í málinu hafa verið í alla staði rétta. Hann tók á því af festu og ákveðni, og gerði það sem þurfti til að skapa frið um skólastarfið. Það að segja upp skólastjóra er allt annað en einfalt og um ferlið gilda ákveðnar reglur. Það er okkar sýn að fræðslustjóri hafi gert það sem var nauðsynlegt fyrir skólann, eftir margra mánaða tilraun til að færa mál til betri vegar.

Í Myllubakkaskóla starfar þéttur og góður hópur fólks, margir hverjir með langan starfsaldur. Það er ekki síst að þakka þeim góða anda sem hefur einkennt skólann alla tíð að skólastarf hefur haldist framsækið og gott þrátt fyrir það sem á hefur gengið.

Júlía Jörgensen og Hildur María Magnúsdóttir.

Trúnaðarmenn kennara í Myllubakkaskóla.

Gunnar Ellert Geirsson, formaður Foreldrafélags Myllubakkaskóla.