Mótum tómstundastefnu eldra fólks
Eldra fólk býr yfir mismunandi reynslu, hefur ólík áhugamál, væntingar og þarfir. Sú þjónusta sem Reykjanesbær býður upp á verður að vera fjölbreytt, einföld, aðgengileg og skilvirk. Þjónustan á að snúast um þann sem nýtir hana en ekki um kerfið sjálft. Framsókn í Reykjanesbæ vill styðja við virkni eldra fólks, tryggja ólíka valkosti og betri þjónustu. Í því felast aukin lífsgæði. Á síðustu árum hafa tómstunda- og félagsmálafræðingar beint sjónum sínum í sífellt meira mæli að málefnum eldra fólks. Örar samfélagsbreytingar, hækkandi lífaldur og almennt betri heilsa eldra fólks gerir það að verkum að þjónustuþarfir þessa margbreytilega hóps hafa breyst verulega, ekki síst á vettvangi virkni og tómstunda. Í Reykjanesbæ er ýmislegt í boði fyrir eldra fólk en alltaf má gott bæta.
Sköpum jarðveg fyrir meiri virkni
Við í Framsókn ætlum að móta tómstundastefnu fyrir eldra fólk í samvinnu við þann öfluga hóp. Markmiðið er að fjölbreytt tómstundastarf verði í boði fyrir alla og að aðstaða verði tryggð þar sem fólk getur komið saman og fengist við margvíslega iðju á eigin forsendum. Við ætlum bæði að leggja áherslu á að ná til óvirkra og félagslega einangraðra einstaklinga í hópi eldra fólks og einstaklinga sem eru vel virkir og geta verið jákvæðar fyrirmyndir. Sérstök áhersla verður lögð á að hlúa að og styðja við sjálfsprottið tómstundastarf og samstarf við félagasamtök. Við viljum einnig að eldra fólk hafi aðgang að íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins fyrir fjölbreytta íþróttaiðkun og heilsueflingu.
Festum heilsueflingu í sessi til framtíðar – fyrir alla!
Við í Framsókn viljum festa heilsueflingu eldra fólks í sessi til framtíðar með úrræðum í líkingu við Janusarverkefnið. Við höfum séð mjög jákvæðar niðurstöður á heilsu og líðan þeirra sem tekið hafa þátt í skipulagðri heilsueflingu og við ætlum að stuðla að því að slík heilsuefling standi öllum sem það vilja til boða. Við trúum því að ef við sköpum jarðveginn þá sé mikill vilji til staðar til að gera hér stórkostlega hluti til þess að það verði enn betra að búa og eldast í Reykjanesbæ. Við hvetjum eldra fólk til að koma með okkur í þessa vinnu.
Vöfflukaffi á sunnudag með Guðna Ágústssyni
Við ætlum að ræða mótun tómstundastefnu í vöfflukaffi næsta sunnudag 8. maí kl.14-16 í sal Framsóknar að Hafnargötu 62. Þar mun Jóhann Friðrik þingmaður baka vöfflur, Guðni Ágústsson segja okkur skemmtilegar sögur og systkinin Fríða Dís og Smári leika létta tóna. Allir hjartanlega velkomnir.
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir
Oddviti B-lista Framsóknar í Reykjanesbæ fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí næstkomandi