Mottumars og sultusala til fjáröflunar
– Krabbameinsfélag Suðurnesja verður með fjáröflun 6. og 7. mars
Marsmánuður – Mottumars er mánuður árvekni- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélagsins gegn krabbameinum hjá körlum. Krabbameinsfélag Suðurnesja mun taka virkan þátt í þessu átaki með ýmsu móti. Til fjáröflunar verða ýmsir munir boðnir til sölu m,a. heimalöguð chilisulta og rabarbara- og gráfíkjusulta. Einnig munum við selja muni frá Raven design sem eru sérstaklega hannaðir fyrir átakið.
Föstudaginn 6. mars verðum við að selja í verslunarmiðstöðinni Krossmóa í Reykjanesbæ eftir kl. 16:00 og laugardaginn 7. mars verðum við fyrir framan Bónus frá kl 11:00. Allur ágóði af því sem við seljum hér á svæðinu rennur beint til Krabbameinsfélags Suðurnesja.
Sunnudaginn 22. mars kl 20:00 verður messa í Keflavíkurkirkju tileinkuð körlum og krabbameinum. Sr. Sigfús B. Ingvason og Sr. Sigurður Grétar Sigurðsson þjóna. Kór Keflavíkurkirkju undir stjórn Arnórs B. Vilbergssonar flytur tónlist. Ólafur Gunnlaugsson mun segja frá reynslu sinni af því að greinast með krabbamein Eins og í fyrra verður kirkjan lýst blá í tilefni af átakinu.
Gaman væri ef Suðurnesjamenn færu í fararbroddi fyrir því að gera körlunum álíka hátt undir höfði og konunum og láta bláa litinn loga jafn skært og bleika litinn í október.
Starfsemi félagsins gengur vel og boðið hefur verið upp á ýmsar nýjungar í vetur. Má þar nefna að KS og lögfræðistofan LS Legal gerðu með sér samstarfssamning sem felur í sér fría lögfræðiráðgjöf fyrir skjólstæðinga félagsins. KS býður þeim sem greinast með krabbamein fría tíma hjá félagsráðgjafa sem veitir ráðgjöf um félagsleg réttindamál í veikindum. Áfram er frítt í jóga hjá Ágústu fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein. Jógað er í OM setrinu að Hafnargötu 57, Reykjanesbæ mánudaga og miðvikudaga kl 10:00. Nú eru í gangi tvö námskeið á vegum félagsins. Qi gong námskeið (Kínverskar æfingar), leiðbeinandi er Þóra Halldórsdóttir og Hugræn atferlismeðferð (HAM), leiðbeinandi er Gunnjóna Una Guðmundsdóttir félagsráðgjafi. Fullt er á bæði námskeiðin.