Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Morgun- og hádegisverður í skólum
  • Morgun- og hádegisverður í skólum
Mánudagur 12. maí 2014 kl. 10:02

Morgun- og hádegisverður í skólum

Í starfi mínu sem kennari í grunn- og framhaldsskóla verð ég vör við  hóp barna og unglinga sem mætir í skólann án þess að fá sér morgunmat.  Ýmsar ástæður eru fyrir því; nenna ekki að borða, vakna of seint, hafa ekki tíma, langar ekki í morgunmat eða ekkert til heima. Þegar líður á daginn fer orkuleysið að segja til sín sem bitnar á einbeitingu og sjálfsaga nemenda.

Mörg börn í Reykjanesbæ hefja daginn snemma t.d. með íþróttaæfingum. Því er brýnt að orkuþörf þeirra sem og annarra barna sé svarað þegar þau koma í skóla að morgni. Við viljum bjóða upp á ókeypis hafragraut í morgunmat fyrir þau börn sem þess óska. Slíkt fyrirkomulag er nú þegar í t.d. Akurskóla og Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Í samráði við Skólamat verður tilraun gerð með þetta fyrirkomulag í öðrum skólum nú síðustu daga þessa skólaárs en við sjálfstæðismenn viljum að slíkur háttur verði hafður á í öllum grunnskólum bæjarins frá og með næsta hausti.

Skólamáltíðin er ódýrust í Reykjanesbæ þegar borin eru saman stærstu sveitarfélög landsins. Við munum áfram bjóða ódýrar og góðar hádegismáltíðir í grunnskólunum og tryggja gæði og heilbrigði þeirra. Gæða- og ánægjukannanir verða gerðar meðal nemenda og virkt samráð haft milli þjónustuaðila, foreldra og Ungmennaráðs Reykjanesbæjar.

Ég hef átt börn í grunnskóla síðan 1996 þegar hvorki morgunmatur né hádegismatur var í boði í skólanum. Útgjöld við nesti voru mikil því að nesta þurfti fyrir allan daginn. Í dag þykir sjálfsagt og eðlilegt að bjóða uppá heitan hádegismat og niðurskorna ávexti á vægu verði.

Við viljum bjóða graut alla skóladaga forráðamönnum að kostnaðarlausu til þeirra sem þess óska. Nemendur eiga þá samverustund í morgunsárið þegar þau næra sig og ganga södd og sæl í verkefni dagsins.

Ingigerður Sæmundsdóttir
Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024