Möguleikar foreldraorlofs
Við höfum gjarnan verið samfélag þar sem vinnan gengur fyrir og talið dyggð að setja vinnuna ofar öllu, að vinnan göfgi manninn er eða var oft sagt. Barneignir eru sannarlega gleðilegar og oft skipulagðar en ekki endilega og gjarnan ekki fjárhagslega.
Alls ekki allir verðandi foreldrar leggja fyrir til að eiga fyrir barneignum og þeirri tekjuskerðingu og útgjöldum sem fylgja í kjölfarið, eða hafa einfaldlega ekki tök á því. Að loknu fæðingarorlofi tekur nefnilega við tímabil sem mörg kvíða, umönnunarbilið svokallaða (eða helvítisgjáin…). Gjáin sem myndast þegar fæðingarorlofi lýkur og biðin eftir leikskólaplássi hefst. Hér er bent á eina leið til að mæta þessu þó fyrsta skrefið að mínu mati sé alltaf að lengja fæðingarorlofið í 24 mánuði. Við erum vonandi samfélag sem setjum fjölskylduna í fyrsta sæti og metum samveru og nánd við okkar nánustu ofar skyldum okkar sem launþega. Við þurfum að gera það eðlilegt að virkja þennan rétt til að lengja fæðingarorlof eða stytta vinnutímann börnunum okkar til góða, líkt og gert er víða erlendis (í Svíþjóð og Hollandi sem dæmi). Réttur foreldra til töku foreldraorlofs, allt að fjóra mánuði yfir 12 mánaða tímabil að átta ára aldri barna er til staðar og er mikilvægur réttur foreldra til samvista við börn sín. Vinnuveitendum ber að veita foreldrum þetta leyfi og er þetta einn liður í átt að barnvænu samfélagi þar sem fjölskyldan er í fyrsta sæti.
Foreldraorlof er lítt notaður réttur foreldra barna undir átta ára aldri til að taka launalaust orlof í allt að fjóra mánuði, skiljanlega þar sem flest heimili stóla á tvær fyrirvinnur. Orlofið gæti þó staðið vörð um störf foreldra og verið eitthvað sem hægt væri að nýta í meira mæli eins og gert er erlendis. Árið 2022 voru níu foreldrar sem nýttu sér þennan rétt. Orlofinu er þannig háttað að foreldri þarf að tilkynna vinnuveitenda um orlofstöku með sex vikna fyrirvara. Ef vinnuveitandi sér sér ekki fært að verða við ósk foreldris þarf hann innan viku að koma fram með aðra útfærslu og bera undir foreldri til samþykkis. Þetta þarf að gera skriflega og tilgreina ástæður. Ef um frestun á töku foreldraorlofs er að ræða að beiðni vinnuveitanda þurfa ástæður að vera sérstakar og ekki er heimilt að fresta foreldraorlofstöku lengur en í sex mánuði a óheimilt er að fresta orlofstöku sem er í beinu framhaldi af fæðingarorlofi, sem gæti sannarlega nýst einhverjum foreldrum þessa dagana. Foreldraorlofi er einnig hægt að dreifa yfir lengra tímabil og jafnvel samhliða minnkuðu starfshlutfalli tímabundið þegar aðstæður á heimili krefjast þess og í samráði við vinnuveitanda. Þarna er skýlaus réttur foreldra til fjögurra mánaða orlofstöku í kjölfar barneigna og eins til skerts starfshlutfalls ef það hentar betur, til dæmis að vera í 50% starfi í átta mánuði þó starfið sé skilgreint 100% alla jafna. Þetta foreldraorlof er vissulega launalaust en er mikilvægur réttur foreldra með ung börn og getur sannarlega komið sér vel í kjölfar fæðingarorlofs eða þegar tímabil í lífi barna krefjast þess.
Við viljum flest lifa í samfélagi þar sem almenn velsæld er í fyrirrúmi og áhersla er lögð á velsældarhagkerfi. Þá þurfa bæði aðgerðir stjórnvalda að miða að velferð og lífsgæðum almennings og vinnuveitendur að hafa í huga að ánægt starfsfólk sem fær tíma og svigrúm til að sinna fjölskyldunni er alla jafna betra og ánægðara í starfi.
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,
leik- og grunnskólakennari,
oddviti VG í Suðurkjördæmi og
stjórnarkona í hreyfingunni.